Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

54 prósent andvíg ESB-aðild

27.04.2012 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Um 54 prósent landsmanna eru mótfallin því að Ísland gangi í Evrópusambandið en tæp 28 prósent eru fylgjandi. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði, segir ólíklegra að þeir sem eru mótfallnir inngöngunni skipti um skoðun en hinir.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, kannaði nýverið afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið. Könnunin var gerð á netinu dagana 15. mars til 16. apríl og var úrtakið tæplega 1.900 manns. Svarhlutfall var um 67%.

Spurt var: Ertu fylgjandi eða mótfallinn því að Ísland gangi í Evrópusambandið? Af þeim sem svöruðu sögðust 27,5% vera mjög eða frekar fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, tæp 54% eru mjög eða frekar á móti og 18,7% eru hlutlaus.

Andstaðan við inngöngu í Evrópusambandið er mest áberandi meðal landsbyggðarfólks, fólks með minni menntun og tekjur, og fólks sem er lakar sett á vinnumarkaði eða stendur utan hans. Þá er afgerandi andstaða við inngöngu í Evrópusambandið meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Samstöðu, en afgerandi fylgi við inngöngu meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar.

Kannað var sérstaklega hlutfall þeirra sem eru eindregnir í afstöðu sinni til inngöngu í Evrópusambandið, og reyndust þær niðurstöður nokkuð áhugaverðar. „Þar kemur í ljós að hópur þeirra sem eru mótfallnir inngöngu hefur miklu sterkari skoðun á málinu heldur en hinir sem eru fylgjandi inngöngu. Þetta hefur þýðingu þegar við erum að hugsa um mögulegar breytingar á afstöðu. Það er ólíklegra að fólk færist úr mjög sterkri afstöðu til dæmis á móti yfir í að vera fylgjandi,“ segir Rúnar.