Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

50 sinnum stærra en gosið á föstudag

31.08.2014 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Flæðið í eldgosinu í Holuhrauni er nánast þúsund rúmmetrar á sekúndu, segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði. „Þannig að þetta er verulegt gos." Hann segir ekki að sjá að neitt hafi dregið úr gosinu síðan í morgun.

„Þetta er töluvert gos. Við höfum upplýsingar um stærðina frá því í morgun, þá var þetta gos búið að vera í þrjá tíma og virðist hafa verið búið að mynda um þriggja ferkílómetra hraunfláka," segir Magnús Tumi. Miklu munar á þessu gosi og gosinu á föstudag. „Þetta gos er svona 50 sinnum stærra, eitthvað í þeim dúrnum, þannig að þetta er allt annar hlutur. Það myndaði bara smá bleðil. Hraunið sem myndaðist í morgun er 30 sinnum stærra en allt sem kom upp í því gosi.“

Þrisvar sinnum meira hraunflæði en í Eyjafjallajökulsgosi

Magnús Tumi segir þetta verulegt gos. „Ef við viljum bera saman við Eyjafjallajökul sem er ekki dæmigert gos, það var aðallega mjög langvinnt, þá er hraunrennslið, magnið sem er að renna þarna, var að renna þarna í morgun, það er dálítið meira, þetta er kannski fjórum eða þrisvar sinnum meira heldur en þar var,“ segir hann. Stærðin nái þó ekki því sem var í Grímsvatnargosinu fyrir þremur árum.

Magnús Tumi segir óljóst hvað gerist næst. „Flest gos eru þannig að þau eru öflugust fyrst, svo dregur úr þeim og þau eru að leka í nokkurn tíma." Nú eigi eftir að koma í ljós hvað gerist næst. „Ég held að við ættum bara að bíða og sjá en það er ljóst að það er verulegt gos."

Holuhraun er að mörgu leyti góður staður til að hafa hraungos, eins og þetta virðist ætla að vera, segir Magnús Tumi. Það sé ekki mikil strókavirkni heldur aðallega flæði.

Fylgjast má með eldgosinu í vefmyndavél Mílu.