Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

50 prósent auglýsingatekna á netmiðlum

29.01.2018 - 12:22
Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
 Mynd: RÚV
„Það er gífurlega erfitt fyrir löggjafann að móta einhverja stefnu er snýr að fjölmiðlum og auglýsingamarkaði vegna þess að þessi markaður er búinn að vera að þróast svo gífurlega hratt. Veruleikinn sem við búum við núna er allt öðruvísi en fyrir fimm árum,“ segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. 

Elfa Ýr var í viðtali í Silfrinu í gær. Hún segir að það sé skiljanlegt að fólk skuli ræða auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. „Ef menn fara að rýna ofan í hvað er búið að vera að gerast erlendis og auglýsinga- og fjölmiðlamarkaðurinn lítur út. Þá er kannski staðan svolítið flóknari heldur en maður mætti halda. Við í fjölmiðlanefndinni höfum tvær skýrslur til hliðsjónar, þar sem við sjáum að Google og Facebook eru alltaf að soga til sín meira og meira,“ segir Elfa Ýr.

Þróun hérlendis svipuð og í Danmörku

Danmörk er talin tæknilega þróaðasti fjölmiðla- og auglýsingamarkaðurinn í heiminum í dag. Norðurlöndin og önnur Evrópuríki bera sig því mikið saman við Danmörku. „Þar eru 50% af öllum auglýsingatækjum að fara á einhvers konar netmiðla. Þar af er fjórðungur að fara á þessa stóru miðla, bara Google og Facebook. Í skýrslu sem var gefin út í lok síðasta árs í Danmörku var bent á að mesta þróunin er í þá átt að fyrirtæki á netinu séu að taka mest til sín. Þeir reikna með því að 75-90% af öllum auglýsingatækjum sem fer á netið munu fara til þessara tveggja miðla á næstu árum. Þetta er einokun,“ segir Elfa Ýr. Hún segir að staðan á Íslandi sé hægari en í Danmörku en hún telur að markaðurinn hér sé að þróast í sömu átt og þar.

Áhrifavaldar á netmiðlum styrkjast 

Facebook hefur verið að gera tilraunir með fréttaveitu sína með það að markmiði að efla miðilinn. Í október kannaði Facebook hvað notendur miðilsins í sex ríkjum; Serbíu, Kambódíu, Srí Lanka, Bólivíu, Gvatemala og Slóvakíu, vildu sjá á fréttaveitu sinni með því að bæta við annarri fréttaveitu, svokallaðri könnunarveitu eða Explore feed, auðkenndri með geimflaug. Á könnunarveitunni gátu íbúar þessara ríkja séð innlegg frá fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum sem hafa ekki greitt Facebook fyrir að koma efni sínu á framfæri. Á fréttaveitunni sem birtist þegar notendur opnuðu Facebook birtust borgaðar auglýsingar og innlegg frá vinum og vandamönnum. „Þetta hafði skelfilegar afleiðingar fyrir fjölmiðla í þessum ríkjum. Áhrifavaldar á samfélagsmiðlunum Instagram og Snapchat taka enn meiri auglýsingatekjur til sín ef það eru í raun og veru vinir þínir sem eru sýnilegir á Facebook en ekki fyrirtæki eða miðlun frétta sem fer mikið fram á Facebook,“ segir Elfa Ýr.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV