50 milljón tonn og 7.000 milljarðar á haugana

25.01.2019 - 03:31
Mynd með færslu
Einn stærsti raftækjaruslahaugur heims er í Accra, höfuðborg Gana. Þar er raftækjarusl frá Vesturlöndum urðað í tonnavís og heimafólk freistar þess að vinna úr því verðmæti eftir bestu getu, meðal annars með því að kveikja í því og bræða úr þeim málma. Mynd:
Byltingar er þörf í öllu er lýtur að framleiðslu, nýtingu og förgun raftækja, að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna. Fimmtíu milljónir tonna af raftækjum, stórum og smáum, enda á ruslahaugum heimsins á hverju ári. Þetta er afar slæmt fyrir umhverfi og heilsu fólks og líka gríðarleg sóun á verðmætum, því þetta raftækjarusl er talið hátt í 7.000 milljarða króna virði. Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem unnin var í samvinnu nokkurra stofnana Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaviðskiptabankans.

Meira en allar heimsins flugvélar frá upphafi

Niðurstöðurnar voru kynntar á viðskiptaráðstefnunni í Davos í gær. Til að setja þetta í samhengi benda höfundar skýrslunnar á það í formála, að raftækin sem við hendum á einu ári vegi meira en allar flugvélar sem framleiddar hafa verið í heiminum samanlagt, og vandamálið fer hratt vaxandi.

Vara skýrsluhöfundar við því að miðað við óbreytta þróun muni Jarðarbúar henda 120 milljón tonnum af raftækjum árið 2050. Í dag er innan við fimmtungur af þessum tækjum endurunninn eða endurnýttur með viðunandi hætti. Milljónir manna í fátækari ríkjum heims vinna hins vegar við að rífa slík tæki við algjörlega óviðunandi, hættulegar og heilsuspillandi aðstæður, ýmist í illa búnum verksmiðjum eða hreinlega á ruslahaugunum.

Eðalmálmar í massavís 

Meirihluti allra heimsins raftækja endar ævi sína einmitt á ruslahaugum, þrátt fyrir að í þeim leynist gull, silfur, kopar, platína og fleiri eðalmálmar í umtalsverðu magni. Raunar svo miklu að verðmæti þeirra er talið um 55 milljarðar evra, þrisvar sinnum meira en það sem ársframleiðsla heimsins á silfri gefur af sér.

Bent er á að í einu tonni af snjallsímum sé hundrað sinnum meira af gulli en í tonni af grjóti í meðalgullnámum nútímans. Auk þess, segir í formála skýrslunnar, veldur vinnsla málma úr raftækjum mun minni losun gróðurhúsalofttegunda en vinnsla sama magns úr jörðu. Nothæf raftæki og heilir hlutir í ónýtum raftækjum eru þó mun meira virði en hráefnið í þeim. Með því að lengja líftíma þessara tækja og endurnýta allt úr þeim sem hægt er fæst þess vegna enn meiri ávinningur, fjárhagslegur og ekki síður umhverfislegur. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV