Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

50 flóttamenn köfnuðu í flutningabíl

27.08.2015 - 11:36
Migrants wait for registration at the reception center for refugees and asylum seekers in central Berlin, Monday, Aug. 24, 2015. (AP Photo/Markus Schreiber).
 Mynd: AP
Fimmtíu flóttamenn köfnuðu í tengivagni flutningabíls í Austurríki í morgun. Lögregla stöðvaði bílinn um 50 kílómetra suðaustur af höfuðborginni, Vín.

Fjölmiðlar í Austurríki greina frá þessu og að bílstjóri flutningabifreiðarinnar hafi flúið af vettvangi og lögregla leiti hans.

Áður höfðu þrír flutningabílar verið stöðvaðir en í þeim voru 34 flóttamenn. Fólkið sagði að mjög loftlaust væri í tengivögnunum og það hefði ítrekað kvartað undan súrefnisskorti. Bílstjórarnir neituðu að nema staðar á leið frá Serbíu til Austurríkis.

Í gær létust 55 flóttamenn á leið frá Líbíu til Ítalíu yfir Miðjarðarhaf. Fólkið fannst í trébát skammt undan ströndum Líbíu en talið er að það hafi látist af völdum gaseitrunar.