Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

5-7 milljónir í verkefni á Borgarfirði eystra

15.02.2018 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd: Torfi Áskelsson - Frá íbúafundinum
Íbúar á Borgarfirði eystra hafa valið hverjar séu brýnust úrbæturnar til að beina sjónum að í verkefninu brothættar byggðir. Fyrsta verk sé að endurheimta verslun og taka á húsnæðismálum en 60% húsa eru í eigu fólks sem ekki býr á staðnum.

Góð mæting var á íbúaþing síðustu helgi en þangað komu einnig brottfluttir Borgfirðingar. Þingið markaði upphaf að verkefni Byggðastofnunar, Brothættum byggðum, á Borgarfirði eystra í samstarfi við Borgarfjarðarhrepp, Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Austurbrú og íbúa Borgarfjarðar. Þar var verkefnum forgangsraðað og efst á blaði er að koma verslun í gagn fyrir vorið. Engin verslun hefur verið opin á Borgarfirði í bráðum hálft ár. Þá þurfi átak í húsnæðismálum en 60% húsa eru í eigu fólks sem ekki býr á staðnum. Bæta þurfi samgöngur og fjarskipti.

Í fréttatilkynningu frá Byggðastofnun kemur fram að Borgfirðingar hafi valið verkefninu nafnið Betri Borgarfjörður. Þeir vilji að rennt verði stoðum undir heilsársatvinnu, til dæmis með aukinni matvælavinnslu bæði í fiski og kjöti og fjölga afþreyingarmöguleikum fyrir ferðamenn. Þá komu fram ýmsar hugmyndir eins og um heilsustofnun og lýðháskóla.

„Næstu skref í verkefninu eru annars vegar að fara í greiningu á stöðu byggðarlagsins og hins vegar að vinna úr skilaboðum íbúaþingsins. Þetta saman notum við til að leggja grunn að verkefnisáætlun fyrir verkefnið á næstu mánuðum,“ segir Kristján Þ. Halldórsson annar tveggja verkefnisstjóra Brothættra byggða hjá Byggðastofnun. Verkefnisstjóri verði ráðinn á næstu vikum til að halda utan um Brothættar byggðir á Austurlandi, Borgarfjörð eystra og Breiðdalsvík. 10 milljónir séu ætlaðar í utanumhaldið á ári en 5-7 milljónir í verkefnastyrki á hvorum stað.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV