Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

480 milljónir í menningarhús á Egilsstöðum

16.10.2016 - 13:37
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Ríkið og Fljótsdalshérað leggja samtals 480 milljónir í menningarhús á Egilsstöðum samkvæmt viljayfirlýsingu sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, undirrituðu í morgun.

Málið má rekja aftur til ársins 1999 en þá ákvað ríkisstjórn að fé skyldi lagt í menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum og er uppbyggingu enn ólokið á Egilsstöðum og Sauðárkróki.

288 milljónir frá ríkinu í verkefnið

Samkvæmt viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í morgun greiðir ríkið 60% af kostnaði eða að hámarki 288 milljónir og er stefnt að því að fé verði lagt í verkefnið árið 2018. Fljótsdalshérað greiðir afganginn eða 40% og ef framkvæmdir fara fram úr áætlun greiðir sveitarfélagið einnig það sem út af stendur. Um 120 milljónir sem Fljótsdalshérað hefur þegar lagt í Sláturhúsið telst hluti af 192 milljóna framlagi sveitarfélagsins og því er ljóst að um 360 milljónir verða lagðar í húsin tvö á næstu árum.

Meðal annars verður gerður fullkominn sviðslistasalur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þannig á Sláturhúsið að verða fjölnota menningarhús fyrir sviðslistir, tónlist, sýningar, vinnustofur, ungmennastarf og þar á auk þess að gera gestaíbúð fyrir listamenn. Lokið verður við Safnahúsið með viðbyggingu og þar með bætt aðstaða fyrir safnkost, sýningar, fyrirlestra, starfsfólk og fræðimenn.

Ekki nýtt stórt menningarhús

Upphaflegar hugmyndir gengu út á að reisa nýtt stórt menningar- og stjórnsýsluhús í miðbæ Egilsstaða en horfið var frá þeim hugmyndum þar sem ljóst þótti að mikill kostnaður hefði fallið á sveitarfélagið. 

Hér að ofan má sjá viðtöl sem Rúnar Snær Reynisson tók við Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, Unnar Geir Unnarsson, forstöðumann Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, og Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, við undirritunina í morgun.

Uppfært klukkan 17:14 með tölu um framlag sem Fljótsdalshérað hefur þegar lagt í Sláturhúsið. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV