Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

4500 manns skrifað undir áskorun um bættan veg

15.01.2018 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Björn Malmquist - RÚV
Í nær hverri fjölskyldu á Akranesi er einhver sem að keyrir Vesturlandsveg til vinnu eða náms segir forsvarsmaður hóps sem berst fyrir bættum samgöngum um Kjalarnes. Yfir 4.500 manns hafa skrifað undir áskorun til samgönguráðherra um nauðsynlegar endurbætur á veginum.

Umferð um Vesturlandsveg aukist mikið

Bjarnheiður Hallsdóttir, íbúi á Akranesi, ekur Vesturlandsveg til og frá vinnu í Reykjavík daglega. Hún segir að fólki í sömu stöðu hafi fjölgað mikið undanfarið, bæði eftir opnun Hvalfjarðarganga og þegar fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði og fólk flutti í auknum mæli á Skagann. Þá hefur umferð einnig aukist með auknum fjölda ferðamanna. Bjarnheiður er ein þeirra sem standa fyrir undirskriftasöfnun og Facebook-hóp þar sem skorað er á yfirvöld að bæta ástand Vesturlandsvegar um Kjalarnes. Þrátt fyrir aukna umferð um veginn hafi viðhald ekki aukist samhliða. „Vegurinn er að okkar mati kominn í ruslflokk sem er óásættanlegt og er að okkar mati tikkandi tímasprengja hvað varðar slys,“ segir Bjarnheiður.

Aðkallandi að fá aukið fé

Í upphafi árs lést maður í umferðarslysi á veginum. Farið er fram á að vegurinn verði færður ofar á forgangslista í vegaframkvæmdum og hann lagaður og breikkaður. Samgönguráðherra var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Hann sagði að bætt hafi verið við fjármagn til viðhalds en tekur undir með kröfum fólksins í landinu: „Það eru aðkallandi verkefni í samgöngumálum víða um land.“

Fólk hrætt við veginn

Bjarnheiður segir að ástand Vesturlandsvegar sé mörgum íbúm á Akranesi hjartansmál.  „Fólk er bara orðið hrætt og er farið að veigra sér við því að keyra við ákveðnar aðstæður. Þetta snertir náttúrlega gríðarlega marga í samfélaginu eins og á Akranesi þar sem búa rúmlega 7.000 manns því að það má segja að í það má segja í það er alltaf einhver í hverri einustu fjölskyldu sem er að keyra á milli þannig að þetta er fólkinu hjartansmál því að það er alltaf hrætt um einhvern sem er að keyra þarna á milli.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður