44 prósent sérfræðilækna eldri en 60 ára

08.10.2017 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meðal þeirra sérgreinalækna sem vantar hér á landi eru gigtarlæknar, svæfingarlæknar og hjartalæknar. Læknar með þessa sérfræðimenntun eru meðal þeirra sem hefur á árinu verið synjað um rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands. 

Sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að veita ekki fleiri sérfræðilæknum samning um greiðsluþáttöku hefur veruleg áhrif á nýliðun. Þetta segir formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur. 44 prósent sérfræðilækna hér á landi eru 60 ára eða eldri og því á leið á eftirlaun á næstu árum.

Átta sérfræðilæknar ætla að höfða mál gegn íslenska ríkinu þar sem þeim var synjað um aðild að rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands um greiðsluþátttöku án þess að þörf á þjónustu þeirra hefði verið metin. 

Segir þörf á nýliðun

Í janúar í fyrra voru settar skorður á fjölgun sérgreinalækna sem heimilað er að starfa á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að kostnaður ríkisins vegna rammasamnings við sérgreinalækna, sem gerður var árið 2013, hafi farið umtalsvert fram úr áætlunum. Reynt sé að koma böndum á þá þróun með þessum aðgerðum. 

Kristján Guðmundsson, formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur, segir ljóst að ráðstöfun ráðuneytisins komi niður á nýliðun meðal sérgreinalækna. „Í sumum tilvikum eru afleiðingarnar býsna skýrar. Ég veit til að að mynda að meðal hjartalækna eru nokkrir að hætta og veruleg þörf á endurnýjun. Einn hefur sótt um, sem full þörf er á núna strax, en fékk synjun. Það vantar svæfingarlækna og gigtarlækna. Í sumum tilvikum er töluvert mikil þörf,“ segir Kristján.

11 prósent lækna orðnir 70 ára

44 prósent sérfræðilækna hér á landi eru 60 ára eða eldri og því á leið á eftirlaun á næstu árum. 11 prósent þeirra eru orðnir 70 ára og því komnir á eftirlaunaaldur. Kristján segir að hér á landi vanti unga sérfræðilækna, flestir kjósi að starfa erlendis. Verk sérfræðilækna eru talin í verkeiningum og að sögn Kristjáns fjölgar verkeiningum þeirra eldri. „Það færist sífellt meira af starfseminni yfir á elstu aldurshópanna og lítur bara ekki vel út. Árið 2016 voru 44 prósent af verkeiningunum unnar af læknum sem komnir eru yfir sextugt og um 30 prósent af læknum sem eru yfir 65 ára. Það er ljóst að það stefnir í að það vanti lækna inn í þennan hóp á næstu árum. Það tekur alltaf dálítið langan tíma frá því að þig vantar sérmenntaðan einstakling, þangað til þú færð hann, ef þú þarf að búa hann til frá byrjun. Þá tekur það býsna langan tíma.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi