Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

42 milljónir veittar úr fornminjasjóði

27.03.2019 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni F. Einarsson - Fornleifafræðistofan
Samtals verða 23 styrkir veitir úr fornminjasjóði í ár. Alls bárust 69 umsóknir. Óvenjumargar góðar umsóknir bárust, segir í tilkynningu, og var 81% þeirra styrkhæf. Fornleifarannsókn í Stöðvarfirði og afhending forngripa úr rannsóknum í Skálholti hlutu hæsta styrki.

Heildarfjárhæð úthlutunarinnar nemur 41.980.000 kr. en sótt var um tæpar 160 milljónir króna í styrk. Í tilkynningu á vef Minjastofnunar segir að þær umsóknir sem fengu hæstu eða næsthæstu einkunn hafi hlotið styrk en svo hafi þurft að forgangsraða. 

Hæstu styrkirnir nema 3,5 millj. kr. og fara í áframhaldandi fornleifarannsókn að Stöð í Stöðvarfirði á vegum Fornleifafræðistofunnar og til Háskóla Íslands í frágang og afhendingu gagnasafna og afhendingu forngripa úr Skálholtsrannsóknum til Þjóðminjasafnsins. 

Þá fær verkefnið Stóraborg undir Eyjafjöllum - vitnisburður forngripa 3,26 milljónir. 

Borgarsögusafnið fær 2,7 milljónir í verkefnið Fornar rætur Árbæjar. Þar hafa staðið yfir rannsóknir undanfarin sumur og þar hafa fundist leifar bygginga sem mögulega eru frá 11. eða 12. öld. Sólrún Inga Traustadóttir fornleifafræðingur sagði í viðtali í þættinum Samfélagið á Rás 1 að stefnt væri að því að hefja uppgröft á ný í maí.  Hlýða má að viðtalið við hana hér að neðan. 

Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Árbæjarsafn.

Verkefnin Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar, fornar rústir í Ólafsdal, uppgröftur að Gufuskálum og Arfabót á Mýrdalssandi fá 2,5 milljónir hvert.

Mynd með færslu
 Mynd: Fornleifafræðistofan
Arfabót á Mýrdalssandi.

Aftökur á Íslandi eftir siðaskipti fá einnig styrk og eins minningarreitir á Þingeyrum, eyðibyggð í Fjörðum og björgun dráttarbátsins Magna fá einnig styrki svo einhverjir séu nefndir.