Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

42 hjúkrunarfræðingar búnir að segja upp

15.06.2015 - 17:26
Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir / RÚV
42 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp í dag, eftir að lög voru sett á verkföll BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á laugardag. Þessu greindi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum frá í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, sagði að frá upphafi hefði verið lögð áhersla á að afstýra verkfalli og leggja allt kapp á að ná samningum til að afstýra því. „Það var öllum ljóst og allir sammála um það að það varð að ljúka verkfalli en það er ekki alveg sama hvernig það er gert, eins og er kannski að koma fram núna.“

„Eins og staðan er í dag er ekki búið að leysa málið,“ sagði Sigríður og kvaðst vona að ná mætti sátt.

„Ég fékk upplýsingar um það nú síðdegis að það væru komnar 42 uppsagnir nú þegar. Síðan heyrum við af því að það séu mun fleiri sem íhuga þessa aðgerð líka,“ sagði Sigríður.

Sigríður var í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag ásamt tveimur hjúkrunarfræðingum. Edda Jörundsdóttir sagði upp í morgun og Guðlaug Traustadóttir síðdegis. „Það var nú ekki af mikilli gleði, frekar neyð,“ sagði Guðlaug. Hún sagðist ekki hafa trúað því áður að standa í þessum sporum. Hún hefði fylgst með á þingpöllum í tvo daga en svo komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyrirframdæmdur leikur.

„Ég lít svo á að mér hafi verið stillt upp við vegg. Það var tekinn af mér samningsrétturinn og það er þá alfarið í höndum annarra að semja um mín kaup og kjör og þess vegna sagði ég upp, ég get ekki sætt mig við þetta,“ sagði Edda.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV