Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

400 milljóna króna samningur í hættu

19.05.2015 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjögur hundruð milljóna króna samningur SAH afurða á Blönduósi, um sölu á lambakjöti og gærum til Hong Kong, er í hættu dragist verkfall dýralækna á langinn. Fyrstu gámarnir eiga að fara úr landi eftir viku.

SAH afurðir er dótturfélag Sölufélags Austur-Húnvetninga sem starfrækir sláturhús og kjötvinnslu á Blönduósi. Nýlega samdi félagið við fyrirtæki í Hong Kong um sölu á 160 tonnum af lambakjöti og 70 þúsund gærum. Heildarverðmæti samningsins er allt að 400 milljónir króna á ári.

Fyrsti gámur bókaður í skip eftir viku

Fyrsta sending á að fara utan í þessum mánuði og segir Gunnar Tr. Halldórsson, framkvæmdastjóri SAH afurða, að gámar með gærum séu bókaðir í skip 26. maí. Sú sending þarf vottun dýralækna Matvælastofnunar og fer ekki af stað verði þeir þá enn í verkfalli.

Sektaðir ef afhendingu seiknar

Gunnar segir það alltaf hættulegt að geta ekki staðið við fyrstu sendingu í nýjum viðskiptum. Það geti haft mikil áhrif á áframhaldandi viðskipti. Í samningnum séu ákvæði um að félagið verði að greiða kaupandanum sektir dragist afhending meira en viku fram yfir umsamdar dagsetningar. „Það má eiginlega segja að það verði strax fjárhagslegt tjón ef ekki næst að fá gáma vottaða í næstu viku."

Óttast að samningnum verði rift

Og dragist verkfallið á langinn þannig að miklar tafir verði á afhendingu, gæti fyrirtækið í Hong Kong hreinlega rift samningnum. „Við erum litlir viðskiptvinir í þessum stóra heimi og þeir kannski nenna ekkert að eiga við okkur ef við getum ekki staðið við gerða samninga," segir Gunnar.