Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

40 störf í fiskvinnslu flutt á Akranes

31.08.2017 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
40 störf verða flutt á Akranes um áramót þegar fiskvinnslan Ísfiskur flytur þangað úr Kópavogi. Fiskvinnslu HB Granda á Akranesi var lokað í dag.

Tilkynnt var í maí að HB Grandi hyggðist loka fiskvinnslunni og að 86 starfsmönnum yrði sagt upp en að hluta þeirra yrði boðið að starfa í fiskvinnslu Granda í Reykjavík. Í dag var svo skellt í lás en jafnframt tilkynnt að fiskur yrði áfram unninn í húsinu því Ísfiskur hefði keypt það og flytur starfsemi sína þangað um áramót en fiskvinnsla Ísfisks hefur verið starfrækt á Kársnesi í Kópavogi frá árinu 1980. Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, segir ákvörðunina byggja á tvennu. „Það eru miklar umbreytingar á Kársnesi þar sem er verið að skipuleggja svæðið og lóðir upp á nýtt og okkar lóð hefur verið skipulögð undir íbúðabyggð. Sem þýddi þá að við töldum það að við ættum að fara að líta í kringum okkur. Og svo hinu að við lokun þeirra á Akranesi vissum við að það væri mögulega hægt að ganga þar inn og kaupa af þeim þær eignir.“

Með þessu verða 40 störf flutt upp á Akranes og þar verða unnin 4000 tonn af ýsu og þorski á ári. Ekki er ljóst hve margir at starfsmönnum Ísfisks vilja flytja með fyrirtækinu en einhverjir af fyrrverandi starfsmönnum Granda gætu fengið þar störf, segir Albert: „Það starfsfólk sem við fáum með okkur uppeftir eru kannski ekki allir sem vinna hjá okkur. Þar af leiðandi skapast rými fyrir einhverja til viðbótar og að sjálfsögðu myndum við fagna því að fá fólk sem hefur verið í húsinu til ára og áratuga til samstarfs við okkur, sem bæði þekkir húsið, kann að vinna fisk og býr á Akranesi.“