Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

40% ofbeldismanna áunnu sér traust þolenda

09.04.2019 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Stígamót - stigamot.is
Flestir kynferðisofbeldismenn þeirra þolenda sem leituðu til Stígamóta í fyrra unnu sér inn traust þeirra áður en þeir brutu á þeim. Um þriðjungur ofbeldismanna byggðu upp tilfinningaleg tengsl við þolanda og einn af hverjum fimm gáfu gjafir eða aðgang að hlutum sem þolandi hefði annars ekki haft aðgang að.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2018 og kynnt var í morgun. 36,3% ofbeldimanna gerðu ekkert sérstakt. Aðeins algengara er að ofbeldismenn í sifjaspellsmálum ávinni sér traust þolenda og gefi þeim gjafir heldur en í nauðgunarmálum.  

Þolendur voru spurðir hvort ofbeldismenn hefðu gert eitthvað til að undirbúa og/eða viðhalda kynferðisofbeldi fyrir, á meðan eða á eftir að ofbeldið átti sér stað. Árið 2018 var spurningunni bætt við á spurningalistann sem lagður var fyrir þolendur sem leita til Stígamóta og er því um nýjar upplýsingar að ræða.  Samtökin segjast með spurningunni leitast „við að fá betri mynd af því hvað ofbeldismenn gera til að undirbúa og/eða viðhalda kynferðisofbeldi.“ 

Rúmlega helmingur kynferðisofbeldismannana eða 58,4% voru á aldursbilinu 18-39 ára þegar þeir frömdu sitt fyrsta brot og 17,2% voru 17 ára og yngri. Þetta eru svipaðar niðurstöður og komu fram í ársskýrslum áranna 2009-2017. 

Höfundur: Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir, mastersnemi í blaða- og fréttamennsku.

 

Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir