Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

40 franskir listamenn á Hjalteyri

07.05.2014 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega 40 franskir listamenn hafa dvalið í listasmiðju í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri undanfarið og sett þar upp sýningu. Unnið er með misjafnan efnivið - meira að segja súkkulaði.

Verkefnið er hluti af listamiðjunni Delta Total sem hófst í Le Havre í Frakklandi í október í fyrra og líkur í París í sumar.  Þátttakendur eru nemendur og kennarar í þremur frönskum listaskólum og nokkrir íslenskir listnemar úr Myndlistarskólanum á Akureyri hafa slegist í hópinn. Listamennirnir dvöldu á Hjalteyri í rúma viku og þurftu að laga sig að staðnum og vinna með annan efnivið en þeir eiga að venjast. 

„Það er ekki mögulegt fyrir nemendur mína að mála málverk,“ segir Dominique Gauthier, kennari við Beaux-arts skólann í París. „Þeir þurfa að vinna þetta hratt þannig að þeir nýta sér efni á staðnum, teikna á veggina og búa til tilraunakennd verk.“

Clementine Viallon vann myndbandsverk þar sem hún flokkar sand úr fjörunni eftir litum. „Ef ég væri heima hefði ég gert svipað verk en líklegast ekki úr sama efni.“

Jafnvel Nutella súkkulaðismjör nýtist sem efniviður. „Síðan ég hætti að borða nutella reyni ég að gefa því nýtt líf í gegnum listina,“ segir Sebastién Monterok, kenna við listaskólann í Le Havre. „Þetta er svo gott í málverk, fitan fer aldrei úr nutella.“