3ja flokka stjórn ekki setið heilt kjörtímabil

29.11.2017 - 16:57
Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin sem væntanlega tekur við völdum á morgun yrði 9. þriggja flokka ríkisstjórnin frá stofnun lýðveldisins. Prófessor í stjórnmálafræði segir að engin dæmi séu um í Íslandssögunni að þriggja flokka stjórn hafi setið heilt kjörtímabil. Líkur séu á að flokkarnir muni lenda í átökum sín á milli og að bakland þeirra verið ótryggt.

Eftir lýðveldisstofnun var það lengi svo að fjórflokkurinn svokallaði var við völd. Ekki var algengt að nýir flokkar bættust í hópinn þó að það hafi að sjálfsögðu gerst. Skilinn voru líka nokkuð skýr frá vinstri til hægri. Á síðari árum eða nánar tiltekið eftir efnahagshrunið hefur bæði kosningahegðun kjósenda breyst og flokkunum sem bjóða fram hefur fjölgað. Í Alþingiskosningunum 2007 buðu 7 flokkar fram og eftir hrunið í kosningum 2009 voru flokkarnir reyndar sjö talsins.  Hins vegar í kosningunum 2013 fór fjöldinn upp úr öllu valdi. 15 flokkar í framboði en aðeins 6 náðu kjöri. 2016 voru 12 flokkar í framboði og 7 náðu kjöri. Og í kosningum í lok október buðu 11 flokkar fram og 8 náðu kjöri.

Kaflaskipti eftir hrun

Það var fjallað um þetta á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í dag. Anna Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur við HÍ segir að það sé erfitt að benda á eitthvað eitt sem valdi fjölgun flokka.

„En ég held að það megi klárlega rekja þetta til efnahagshrunsins og þeirra átaka sem voru í kjölfar þess 2008 og 2009. Í kjölfar þess var jarðvegurinn frjór fyrir nýja flokka til að ná töluverður fylgi. Meðal annars vegna þess að traust til hinna gömlu eða hefðbundnu flokka snar minnkaði og hefur ekki jafnaði sig síðan þá. Og líka  vegna þess að við sáum í kosningunum 2009 að fólk upplifði alemennt minni tengingu við stjórnmálaflokka og það opnar á að aðrir nýir flokkar eigi möguleika,“ segir Eva Heiða

3ja flokka stjórn aldrei setið heilt kjörtímabil

Fjölgun stjórnmálaflokka og umbrot í flokkakerfinu sem hafði verið nokkuð stöðugt hefur líka áhrif á  myndun ríkisstjórna. Frá lýðveldisstofnun hefur tveggja flokka ríkisstjórn verið algengust. Alls hafa verið myndaðar 12 tveggja flokka ríkisstjórnir á þessu tímabili, 8 þriggja flokka stjórnir og aðeins ein 4 flokka ríkisstjórn. Gunnar Helgi Kristnsson, prófessor í stjórnmaálafræði við Háskóla Íslands benti meðal annars á að það sem hefði  einkennt  ríkisstjórnarmyndanir hér væri að yfirleitt eru ekki fleiri flokkar í þeim en þarf til að mynda meirihluta, flokkarnir sem sitja í ríkisstjórn er samliggjandi hvað varðar hugmyndafræði og loks að minnihlutastjórn væru aðeins myndaðar til bráðabirgða. Þetta væri hin almenna þróun en þó með ýmsum tilbrigðum. Hann segir að aukinn fjöldi flokka auki vandann við að mynda ríkisstjórn.

„Munu lenda í átökum“

Í kvöld kemur í ljós hvort málefnasamningur nýrrar ríkisstjórnar verður samþykktur og hvort ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks taki við völdum á morgun. Það  tókst ekki að mynda stjórn fjögurra flokka, VG, Samfylkingar, Pírata og Framsóknar. Ekki var nægilegur áhugi til að reyna myndun fimm flokka ríkisstjórnar. Þrátt fyrir fjölgun flokka virðist niðurstaðan ætla að verða sú að hér taki þriggja flokka stjórn við völdum og yrði þá sú 9. frá 1944. En þessi ríkisstjórn er sérstök að ýmsu leyti.

„Já, hún er sérstök að því leyti að að hún spannar allt hið pólitíska svið, alveg frá flokkunum lengst til vinstri og til flokksins lengst til hægri. Að því leyti mun hún glíma við mjög erfiðar aðstæður. Hún er í fyrsta lagi þriggja flokka stjórn. Það eru engin dæmi um að þriggja flokka stjórn hafi setið heilt kjörtímabil í Íslandssögunni. Í öðru lagi eru hún pólitískt ig hugmyndafræðilega ósamstæð. Þannig að það eru verulegar hættur á ferðinni fyrir þá flokka sem eru í ríkisstjórn. Þeir munu lenda í átökum sín á milli. Baklandið verður ótryggt og þeir munu hugsanlega reyna að kaupa sig út úr erfiðum aðstæðum með því að auka ríkisútgjöldin,“ segir Gunnar Helgi.

Nánari umfjöllun er í Speglinum.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi