Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

39 fórust í hryðjuverkaárás í Sómalíu

11.11.2018 - 05:42
epa07153715 Security officers gather at the scene of explosions outside a hotel in Mogadishu, Somalia, 09 November 2018. Media reports say at least 10 people were killed after twin car bombs exploded near a hotel in the Somali capital on 09 November.
 Mynd: EPA-EFE - EPA
39 fórust og 40 særðust í hryðjuverkaárás í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, síðdegis á föstudag. Þá sprungu tvær bílsprengjur í miðborginni ; önnur þeirra við Sahafi-hótelið og hin við höfuðstöðvar rannsóknarlögreglunnar. Þriðja sprengjan sprakk skömmu síðar í þríhjóla „tuk-tuk" vagni á fjölfarinni götu nærri hótelinu. Að sögn lögreglu freistaði hópur byssumanna þess að ráðast inn í hótelið í framhaldinu, en þeir voru allir felldir af vopnuðum öryggisvörðum hótelsins.

Yfirmaður í lögreglunni í Mogadishu, Mohamed Hussein, staðfesti í samtali við Reuters-fréttastofuna að 39 hefðu látið lífið í ódæðisverkunum, sem hryðjuverkasamtökin Al-Shabab lýstu á hendur sér. Hann segir jafnframt að mögulega hafi fleiri látist, því nokkurra sé enn saknað.

BBC greinir frá því að eigandi Sahafi-hótelsins, Abdifatah Abdirashid, hafi verið á meðal hinna látnu. Hann tók við rekstri hótelsins þegar faðir hans, Abdirashid Mohamed, lést í svipaðri árás fyrir þremur árum.  

Al-Shabab, vopnuð hreyfing íslamskra trúarofstækismanna, hefur gert margar mannskæðar árásir á hótel og fleiri byggingar í Mogadishu og víðar í Sómalíu undanfarin ár, þrátt fyrir að hersveitum Sómala og Afríkubandalagsins hafi tekist að hrekja vígasveitir þeirra út úr höfuðborginni og flestum stórum borgum öðrum. Ein þeirra, bílsprengjuárás sem varð minnst 358 manns að bana í fyrra, er mannskæðasta hryðjuverk í sögu Sómalíu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV