Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

37% á kjörskrá kusu Ólaf Ragnar

01.07.2012 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor telur að Ólafur Ragnar Grímsson leggi minna upp úr því en forverarnir að mynda sátt um forsetaembættið. 36-37 prósent á kjörskrá kusu Ólaf Ragnar. Í kosningunum 1988 fékk Vigdís Finnbogadóttir atkvæði 67 prósenta þeirra sem voru á kjörskrá.

„Þetta er tiltölulega sannfærandi sigur. Hann er með vel yfir 50 prósent. Það er ákveðið táknrænt gildi að ná yfir 50 prósent þó það skipti formlega engu máli," segir Gunnar Helgi. „Á móti kemur hins vegar að þetta er bara í þriðja skipti sem boðið er fram gegn sitjandi forseta. Sitjandi forsetar hafa yfirleitt unnið með mjög sannfærandi hætti. Yfirleitt er í fyrsta lagi ekki boðið fram gegn þeim. Í öðru lagi að þegar hefur verið boðið fram gegn þeim hafa þeir unnið með mjög afgerandi hætti. Vigdís Finnbogadóttir fékk hátt í 100 prósent atkvæða, 94 prósent atkvæða, 1988, og um 67 prósent kjósenda á kjörskrá studdu hana."

 

Önnur sýn á embættið
Gunnar Helgi telur að Ólafur Ragnar hafi ekki miklar áhyggjur af því að hafa ekki fengið meira fylgi eða notið þeirrar stöðu sem fyrri forsetar höfðu meðal þjóðarinnar. „Enda held ég að hans hugmynd um forsetaembættið sé öðruvísi en forvera hans. Hans markmið er ekkert endilega bara það að stofna sátt um forsetaembættið eins og forverar hans stefndu að augljóslega. Hans hugmynd er sú að forsetaembættið eigi að vera virkt í stjórnmálum, hann eigi að hafa skoðun á mikilvægum þjóðmálum og eins og hann var að lýsa hérna áðan í viðtali að beita sér jafnvel með enn virkari hætti en hann hefur gert hingað til."

Ólafur Ragnar hlaut 52,8% atkvæða. „Það er svona 36-37 prósent kjósenda á kjörskrá sem hefur kosið hann. Sem er auðvitað ekki mikið en það markast af lítilli kosningaþátttöku að hluta til og að hluta til af því að hann er ekki að fá eins afgerandi kosningu og aðrir forsetar hafa fengið," segir Gunnar Helgi.

 

Gæti orðið ríkisstjórnum erfiður
Endurkjörið getur haft áhrif á það hvernig forsetinn starfar, að mati Gunnars Helga. „Ég hugsa að Ólafur Ragnar sem alltaf hefur verið að þenja svolítið út túlkun sína á forsetaembættinu muni gera það ennþá frekar en áður. Hann muni vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir hentugleikum. Ég held að hann geti orðið erfiður ríkisstjórnum. Óvænt afleiðing af þessu ótvíræða endurkjöri hans gæti verið að sjálfstæðismenn teldu meiri ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána og ákvæði hennar um forseta en þeir hafa gert hingað til."

 

Árangursrík kosningabarátta
„Samsetning stuðningsmannahópsins er eiginlega þannig að rúmlega tveir þriðju hlutar hans eru sennilega stjórnarandstöðustuðningsmenn, það er að segja kjósendur Framsóknarflokksins og sérstaklega Sjálfstæðisflokksins. Það sýnir hvað þetta var árangursrík kosningabarátta hjá Ólafi. Hann bjó til pólitíska formúlu þar sem hann safnaði saman Icesave-andstæðingum, Evrópuandstæðingum, Sjálfstæðismönnum, Framsóknarmönnum og sérstaklega andstæðingum ríkisstjórnarinnar, " segir Gunnar Helgi. „Þetta var það sem skipti sköpum fyrir það að hann kom úr stöðu þar sem hann virtist ætla að tapa kosningunum yfir í að vera ótvíræður sigurvegari kosninganna."

 

Ekki ástæða til að lesa of mikið í kjörsókn
69,2 prósent á kjörskrá nýtti sér kosningarétt sinn og er það aðeins í annað skipti sem innan við sjötíu prósent kjósa í forsetakosningum. „Kjörsóknin er kannski ekki góð. Það hefur verið aðeins þróun í þá átt að kjörsókn hefur verið að minnka á Íslandi. Ég held að þetta verði að skýrast fyrst og fremst af því að það var kannski ekki mikil spenna eftir þessar síðustu kannanir í kringum kosningar, það er komið talsvert inn í sumarið. Ég myndi ekki legga of mikið upp úr þessari kjörsókn," segir Gunnar Helgi.