362 á biðlista eftir hjúkrunarrými

11.12.2018 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi þeirra sem er á biðlista eftir hjúkrunarrými á hjúkrunarheimili hefur aukist úr 226 í 362 eða um 60 prósent á landsvísu frá janúar 2014 til janúar 2018. Á sama tíma fjölgaði þeim sem þurftu að bíða umfram níutíu daga eftir hjúkrunarrými um 36 prósent.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland, þingmanns Flokks fólksins. Þar kemur einnig fram að á síðasta ári létust 183 sem voru á biðlista eftir hjúkrunarrými og það sem af er þessu ári hafa 110 sem voru á biðlista látist.   

Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöld að alls bíða um 130 manns á Landspítalanum og nálægum sjúkrahúsum eftir því að komast á hjúkrunarheimili. Þetta hefur valdið svo miklu álagi á Landspítalanum að öryggi sjúklinga stendur ógn af.  Sjúkrahótel verður tekið í notkun í febrúar eða mars sem gæti létt á álaginu og þá er einnig verið að kanna hvort auka megi heimahjúkrun eða efla mönnun á Spítalanum. 

Í svari heilbrigðisráðherra segir að með framkvæmdum við fjögur hjúkrunarheimili í Hafnarfirði, á Seltjarnarnesi, Árborg og í Reykjavík fjölgi hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára. Aðeins eru þrjár vikur þar til hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi verður tilbúið en það gætu liðið tveir mánuðir þar til að það verður tekið í notkun þar sem ekki hefur verið auglýst eftir rekstraraðila. 

Svandís segir jafnframt í svari sínu að innlögn heilbrigðra maka hjúkrunarsjúklinga hafi ekki verið í umræðunni um nokkurt skeið. Gerð hafi verið tilraun með slíkt í Kópavogi en það hafi leitt í ljós fleiri úrlausnarefni en lagt var upp með.  Þar megi meðal annars nefna stöðu makans þegar sá veiki fellur frá, þjónustu hjúkrunarheimilisins við þann heilbrigða og letjandi áhrif á virkni heilbrigða makans. Slíkt gæti leitt til „ótímabærrar hnignunar sjálfsbjargargetu,“ segir í svari ráðherrans. 

Þá séu herbergi á hjúkrunarheimilum í mörgum tilvikum of lítil til að hjón geti deilt herbergi. „Ef hjón hefðu sitt herbergið hvort tæki það upp aukahjúkrunarrými sem ætlað væri einstaklingi í þörf fyrir þá þjónustu. Slíkt mundi því lengja biðlista sem því næmi.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi