Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

36% styðja ríkisstjórnina

01.12.2010 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup nýtur ríkisstjórnin stuðnings 36% svarenda. Þetta er 6% fleiri en studdu ríkisstjórnina í sambærilegri mælingu í október.

Í lok október mældist ríkisstjórnin með 30% fylgi og hafði þá ekki notið minni stuðnings frá kosningum. Í nýjum Þjóðarpúlsi, sem tekinn var í nóvember, virðist stjórnin sækja í sig veðrið og er nú komin upp í 36% fylgi. Það eru þó enn næstlægstu fylgistölur sem þessi stjórn hefur fengið.

Samfylkingin bætir við sig, fer úr 18% í síðustu mælingu í tæp 22%. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og missir 2%, fer úr 36% í 34%. Hann hefur mælst stærsti flokkur landsins undanfarna sjö mánuði.

Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka milli mánaða: Vinstri græn fengju tæplega 18% atkvæða ef kosið væri í dag, Framsóknarflokkurinn 13% , Hreyfingin tæp 8%, og rúmlega 65 myndu kjósa aðra flokka. Könnunin var gerð dagana 27. október til 28. nóvember. Úrtakið voru tæplega 6800 manns af öllu landinu, og svarhlutfall var 67%. 12% aðspurðra tóku ekki afstöðu og 18% sögðust skila auðu eða kjósa ekki ef gengið yrði til kosninga nú.