Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

358 látnir í Mogadishu

21.10.2017 - 03:34
epa06265446 Vehicles burn at the scene of a massive explosion in front of Safari Hotel in the capital Mogadishu, Somalia, 14 October 2017. Reports state at least 20 peole have been killed when a truck bomb went off on a busy street in central Mogadishu.
 Mynd: EPA
358 eru látnir af völdum sprengjuárásarinnar sem gerð var í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, hinn 14. október síðastliðinn. 228 liggja særðir eftir og 56 er enn saknað. Abdirahman Osman, ráðherra upplýsingamála í sómölsku ríkisstjórninni greindi frá þessu á twitter í kvöld. Þetta eru mun fleiri en áður hefur verið talið, en fyrr í þessari viku var upplýst að 276 hefðu látið lífið í sprengingunni og um 300 særst.

Erfitt hefur reynst að henda reiður á fjölda þeirra sem fórust. Annars vegar vegna þess að margir urðu svo illa úti í sprengingunni að það torveldar hvort tveggja að bera kennsl á fórnarlömbin og telja þau. Hins vegar eru fjölskyldur hinna látnu oft fljót að fjarlægja líkamsleifar sinna nánustu og gera þeim útför. Búið er að jarða yfir 100 manns sem fórust í árásinni en ekki tókst að bera kennsl á.

Um 20 byggingar í viðskiptahverfi borgarinnar, Hodan, eyðilögðust þegar vörubíl var ekið inn í hverfið og hann sprengdur í loft upp. Talið er að hálft tonn af sprengiefnum eða meira hafa verið í bílnum. Engin hryðjuverkasamtök hafa lýst þessari mannskæðustu hryðjuverkaárás í sögu Sómalíu á hendur sér. Grunur beinist þó að íslömsku hryðjuverkasamtökunum Al-Sahabaab, sem framið hafa fjölda illvirkja í Mogadishu í þeim yfirlýsta tilgangi að bola stjórn Sómalíu frá völdum. Samtökin hafa áður látið það ógert að lýsa hryðjuverkum á hendur sér, sem kallað hafa á jafn harkaleg viðbrögð og þetta. 

Forseti Sómalíu, Mohamed Abdullahi Mohamed, hét því á miðvikudag að herða baráttuna gegn Al-Shabaab og sagði að árásin um síðustu helgi sýndi það og sannaði að ekki væri nóg að gert enn. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV