Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

32 bíða eftir dagþjálfun í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Biðlistar eftir dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun hafa víða lengst undanfarin ár. Í júlí voru 32 á biðlista hjá Roðasölum, dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun í Kópavogi. Þar er rými fyrir tuttugu einstaklinga á dag.

Kópavogsbær sér um reksturinn en fær greidd daggjöld frá ríkinu, að því er segir á vef Alzheimersamtakanna. Á höfuðborgarsvæðinu öllu bíða um tvö hundruð manns eftir að komast að í slíka dagþjálfun.

Jón Snædal, yfirlæknir á öldrunarlækningadeild Landspítala, sagði í viðtali við fréttastofu í gær að í Hafnarfirði og í Kópavogi hafi uppbygging á slíkum úrræðum ekki fylgt mikilli uppbyggingu á íbúðum. Dagþjálfun væri mjög mikilvæg til að bæta virkni fólks með heilabilun.

Í svari Kópavogsbæjar við fyrirspurn fréttastofu segir að engin rými séu fyrir fólk með heilabilun á Hrafnistu í Kópavogi en sótt hafi verið um að sex rými yrðu þannig. Nýlega synjaði ríkið því.

Í dagdvöl í Sunnuhlíð í Kópavogi eru sex rými fyrir fólk með heilabilun. Alls eru 65 á biðlista eftir að komast að í Sunnuhlíð. Ekki er haldið sérstaklega utan um það hve margir þeirra eru með heilabilun, að því er segir í svari frá Kópavogsbæ við fyrirspurn fréttastofu.