315 þúsund tonn af kolum brennd í Helguvík

12.02.2017 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þegar kísilver Thorsil í Helguvík tekur til starfa mun kolanotkun íslenskrar stóriðju aukast svo um munar. Fyrirtækið áætlar að nota þrefalt meira af kolum á ári en PCC á Bakka og rúmlega helmingi meira en nágrannar þeirra í Helguvík, United Silicon. Samanlagt munu þessi þrjú kísilver nota um 380 þúsund tonn af kolum á ári.

Thorsil fékk nýlega starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og áætlað er að framleiðsla í kísilverinu hefjist á næsta ári. Kísilver nágranna þeirra í United Silicon var gangsett í nóvember á síðasta ári, og áætlanir gera svo ráð fyrir því að kísilver PCC á Bakka við Húsavík verði formlega opnað seint á þessu ári.

Mynd: RÚV / RÚV

380 þúsund tonn á ári

Eins og greint var frá í upphafi þessa árs verður kolanotkun PCC um 66 þúsund tonn á ári. Hjá United Silicon er gert ráð fyrir því að 120 þúsund tonn af kolum þurfi til framleiðslunnar á hverju ári og hjá Thorsil er þessi tala lang hæst, en þar verða 195 þúsund tonn af kolum brennd árlega. Því verða 315 þúsund tonn notuð í Helguvík og rúmlega 380 þúsund tonn í öllum þremur verksmiðjunum.

Mynd með færslu
 Mynd:
66 þúsund tonn af kolum verða brennd á Bakka.

Losunarheimildir á markaði

Þetta þýðir þó ekki endilega að farið sé gegn Parísarsamkomulaginu, þar sem markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland og Noregur hafa sett sér markmið ásamt Evrópusambandinu um að minnka þessa losun. Innan þessa sambands geta fyrirtæki í stóriðju keypt og selt heimildir til losunar. Þessum heimildum fækkar sífellt og þar með verða þær verðmætari.

Markmiðið er að heildarlosun stóriðju í Evrópu minnki og bent hefur verið á að losun slíkra lofttegunda hér geti á heildina litið verið umhverfisvænni þar sem raforkan er endurnýjanleg sem minna er af erlendis. Kolin sem notuð eru í kísilverunum eru enda ekki brennd til þess að framleiða orku, heldur til að ná fram ákveðnum efnahvörfum til að framleiða kísilmálm. Aukin losun hér á landi gæti þannig þjónað þeim tilgangi, að minnka hana í heildina í allri Evrópu.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi