
300 tonna vélar á sinn stað í stöðvarhúsinu
Þeistareykjavirkjun er byggð í tveimur áföngum sem samtals verða 90 megawött. Nú er að ljúka mörgum mikilvægum þáttum í byggingu virkjunarinnar.
Fyrri hluti gufuveitunnar tilbúinn
Gufuveitan er mikið mannvirki - tæpir sjö kílómetrar af stálpípum sem flytja orkuna úr borholum í stöðvarhús. Fyrri áfanga gufuveitunnar er nú lokið. „Það er búið að leggja hana og þrýstiprófa, einangra og klæða. Hún er í raun tilbúin til rekstrar,“ segir Einar Erlingsson, staðarverkfræðingur Landsvirkjunar á Þeistareykjum.
Vélbúnaður settur upp í stöðvarhúsinu
Bygging stöðvarhússins er langt komin. Utanhússklæðingu er lokið og frágangur innanhúss á lokametrunum. Aðal vinnan er nú í sjálfum vélasal hússins en í lok síðasta árs kom hingað þyngsti búnaður sem fluttur hefur verið á þjóðvegum landsins. Fyrri vélasamstæða virkjunarinnar af tveimur er komin á sinn stað og þar hvíla næstum því 300 tonn á undirstöðum. „Nú opnast mörg vinnusvæði fyrir verktakana,“ segir Einar. „Þar sem þeir geta farið í að vinna, setja saman og tengja vélasamstæður, sem verða meira og minna samsettar á vormánuðum.“
Lítill snjór og hagstætt veður í vetur
Prófanir á fyrri vélasamstæðunni hefjast í ágúst, en hún á að vera komin í fullan rekstur í desember. Seinni vélin er væntanleg í lok apríl og verður gangsett á næsta ári. En þrátt fyrir að vinna uppi á fjöllum, segir Einar að veður hafi ekki verið til vandræða. Þeir hafi aðeins fengið að finna fyrir veðrinu síðasta vetur, í ár hafi veturinn verið einstaklega góður. „Það er ekkert sem hefur verið að trufla okkur. Það er einn og einn dagur með miklum vindi, en sjór eða ófærð hefur verið óveruleg,“ segir hann.