Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

300 jarðskjálftar frá miðnætti

20.08.2014 - 06:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Tæplega 300 jarðskjálftar hafa mælst í og við Bárðarbungu frá miðnætti nótt. Stærsti skjálftinn mældist 3 að stærð en hann varð rétt fyrir kl. 4 í nótt norðaustur af Bárðarbungu, á því svæði þar sem skjálftar hafa orðið síðustu daga í austari þyrpingu.

Skjálfti sem mældist 2,7 að stærð varð í öskju Bárðarbungu rétt fyrir klukkan eitt. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni eru skjálftarnir í nótt og í morgun á svipuðu dýpi og þeir sem hafa mælst síðustu daga. Engin merki séu um gosóróa eða að hraunkvika sé á leið upp á yfirborðið.

Áformað var að rýmingu á svæðinu norðvestan af Vatnajökli yrði lokið á þriðja tímanum í nótt en henni á að halda áfram í dag. Skömmu fyrir miðnætti sagði Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum, að hún hefði gengið vel fyrir sig en þó væri ekki hægt að útiloka að einhverjir hefðu orðið eftir á svæðinu.

Víðir sagði að áformað væri að fljúga flugvél Landhelgisgæslunnar yfir svæðið í dag til að kanna hvort einhver hafi orðið eftir, en ekki sé vitað um alla sem séu á ferð á þessum slóðum.

 

Jarðskjálftar frá miðnætti til morguns. Kort:Veðurstofa Íslands