Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

300 í #metoo-hópi um Jón Baldvin

14.01.2019 - 09:22
Mynd:  / 
Um 300 hafa gengið í #metoo hóp á Facebook þar sem fjallað er um Jón Baldvin Hannibalsson, þolendur, aðstandendur þeirra og stuðningsfólk. Tvær konur sem sagt hafa sögu sína segja að hann sé hættulegur og þær hafi viljað vara við honum. Þær segja að mikil breyting hafi orðið á síðustu árum í umræðu um kynbundið ofbeldi og áreitni sem geri að verkum að þolendum sé trúað frekar en áður var.

Fjórar konur sem segja Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hafa áreitt sig kynferðislega stigu fram í Stundinni fyrir helgi. Tvær þeirra sögðu sögu sína í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Átti von á meiri viðbrögðum 2012

Önnur þeirra er Guðrún Harðardóttir, frænka eiginkonu Jóns, sem fékk klúr bréf frá honum þegar hún var tólf/þrettán til sautján ára. Hún sagði sögu sína upphaflega í viðtali í tímaritinu Nýju lífi sem birti bréfin árið 2012. Hún átti von á meiri viðbrögðum en sú umfjöllun vakti. Það hefði verið dálítill skellur hversu lítil viðbrögðin voru.

„Ég bjóst náttúrulega við því að það myndi koma alda af konum á eftir mér þá. En þær voru ekki tilbúnar og þær eru það núna. Ég ber enga biturð gagnvart þeim. Mér finnst þær vera algjörar hetjur þessar konur sem eru að koma fram núna. Þær hafa engin bréf, engar sannanir, bara orð á móti orði eins og ég sagði. Sumar eru búnar að hafa þetta í maganum í fimmtíu ár. Maður getur ekki ímyndað sér hvað það er erfitt,“ sagði Guðrún.

„Hörfa og sest niður í sjokki“

Ein þeirra kvenna sem stigu fram núna er Carmen Jóhannsdóttir. Hún sagðist hafa farið með móður sinni og þrettán ára systur í heimsókn til Jóns Baldvins og Bryndísar Schram eiginkonu hans, á heimili þeirra á Spáni. Carmen sagði að í síðbúnum hádegisverði hefði Jón Baldvin farið að þukla sig þegar hún var að skenkja í glös. „Við erum sem sagt að fá okkur vín með matnum og ég er að skenkja í glösin. Ég stend við hliðina á honum þar sem hann situr við borðið og hann byrjar að strjúka á mér rassinn. Ég bara hörfa og sest niður í sjokki. Mamma mín segir þá við Jón að henni finnist að hann eigi að biðja mig afsökunar vegna þess að hún hafi séð hvað hann hafi gert. Hann náttúrulega þóttist ekkert vita og ypti bara öxlum.“

Carmen sagðist hafa stigið upp og farið afsíðis, í göngutúr með systur sinni. Móðir þeirra hefði tekið saman föggur þeirra eftir að hafa krafið Jón Baldvin um afsökunarbeiðni. „Það síðasta sem við heyrðum hann segja, eða ég heyrði hann segja var: Ef þið farið með þetta í fjölmiðla þá lögsæki ég ykkur.“

Uppreisn æru fyrir Guðrúnu og Aldísi

Carmen sagðist hafa verið tvístígandi að yfir þessu, bæði um hvort hún ætti að kæra Jón, sem hún væri enn að íhuga, og hvort hún ætti að segja sögu sína. Sá kvíði hefði horfið og baráttuvilji birst í staðinn þegar hún ræddi við aðrar þær konur sem stigu fram í Stundinni fyrir helgi. Hún sagði mikið hafa breyst síðan Guðrún sagði sögu sína fyrir tæpum sjö árum, „Og ef eitthvað er þá er þetta algjör uppreisn æru fyrir Guðrúnu og Aldísi [Scram, dóttur Jóns].“

Guðrún sagði á Rás 2 í dag að umfjöllunin árið 2012 hefði fyrst og fremst verið persónulegur sigur fyrir sig að því  leyti að hún hefði getað gert hreint fyrir sínum dyrum. „Af því að maður var orðinn þreyttur á að það væri bara viðurkennt að það væri einhver dónakall í fjölskyldunni. Núna er þetta einhvern veginn þannig að konur bara slá hnefann í borðið og nenna ekki að hafa einhverja dónakalla í kringum sig. Þær standa saman og við sjáum að sameinaðar erum við svo sterkar. Þannig að já, þetta eru mjög breyttir tímar.“

Guðrún sagði #metoo hafa haft mikil áhrif. „Það sem kemur með #metoo er að þú mátt segja allt. Þegar ég fer til lögfræðingsins mín þegar ég er tvítug eða eitthvað svoleiðis segir hann strax að það sé eitthvað búið að fyrnast af því sem gerðist, að það sé langsterkast að hafa það sem er svart á hvítu. Það sem gaf mér kjark og þor til að stíga fram er að ég hafði þetta svart á hvítu. Það er það sem konurnar sem eru að koma fram núna hafa ekki. Ég var með bréfin, mörg bréf. Það voru að vísu flest þeirra fyrnd nema tvö síðustu.“

Guðrún sagði að árið 2012 hafi hún ekki treyst sér til að segja meira en það sem hún gæti sýnt fólki fram á með bréfunum frá Jóni sem hún hafði undir höndum. Tíðarandinn hafi verið annar þótt stuttur tími sé liðinn síðan þá. Carmen sagði að nú væru um 300 manns í #metoo hópnum sem var stofnaður um Jón Baldvin. Það væru þolendur, aðstandendur þeirra og fólk sem vildi lýsa stuðningi við þolendur.

Velur stað og stund

Jón Baldvin sagði í samtali við fréttastofu á laugardag að hann myndi velja stað og stund til að svara ásökunum í sinn garð. „Þú spyrð mig um viðbrögð. Þau eru að ég hlusta og mun að sjálfsögðu svara og mun gera það þegar mest af því er komið fram sem er að vænta.“ 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV