Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

30 rými í dagþjálfun á áætlun í Reykjavík

Mynd með færslu
Hrafnista. Mynd úr safni. Mynd: Rúv
Dagrýmum fyrir fólk með heilabilun verður fjölgað um hundrað á næstu fimm árum samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. 179 manns á höfuðborgarsvæðinu bíða nú eftir að komast að í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun.

Hrafnista í Reykjavík hefur fengið heimild til að gera breytingar á starfsemi sinni þannig að hægt verði að opna þar 30 rými í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun, að því er fram kemur í svari Birgis Jakobssonar, aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn fréttastofu. Gangi áætlanir eftir getur starfsemin hafist snemma á næsta ári.

Líkt og áður sagði er ætlunin að fjölga rýmum í dagþjálfun um tæplega eitt hundrað á landsvísu á næstu fimm árum, með þeim fyrirvara að fjármögnun fáist frá Alþingi á hverju ári. Reiknað er með að 30 rými verði í Reykjavík en ekki hefur verið ákveðið hvar hin rýmin verða.

Sjúkratryggingar Íslands og rekstraraðilar þjónustunnar eiga nú í samningaviðræðum um gerð rammasamnings um reksturinn. Í honum verður kveðið á um þá þjónustu sem ber að veita og greiðslur fyrir hana. „Meðan slíkur samningur liggur ekki fyrir er ákveðin óvissa um fjölgun dagdvalarrýma,“ segir í svari aðstoðarmanns ráðherra.

Ríkið ber kostnað af rekstri dagþjálfunarrýma í formi daggjalda, að undanskildum greiðslum frá þeim sem nýta þjónustuna. Ríkið greiðir einnig húsnæðisgjald til viðhalds samkvæmt ákveðnum reglum. Rekstraraðilar leggja fram húsnæði undir starfsemina en geta vegna framkvæmda við uppbyggingu sótt um allt að 20 prósenta framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Birgir segir að ef vel eigi að vera þurfi slík þjónusta að byggjast á heildstæðri þjónustukeðju, þar sem sveitarfélögin hafi mikilvægi hlutverki að gegna til að styðja fólk til búsetu heima. „Góð þjónusta í heimahúsum, gott aðgengi að heimsendum mat, félagsmiðstöðvum, akstursþjónusta og svo framvegis eru mikilvægir hlekkir í þeirri keðju og hafa áhrif á hvenær þörf er á dýrari úrræðum, eins og til dæmis dagdvalarþjónustu, að ekki sé talað um þjónustu á hjúkrunarheimilum. Heimahjúkrun skiptir einnig miklu máli. Þetta þurfa ríki og sveitarfélög að leysa sameiginlega,“ segir hann.

Samkvæmt reglugerð um dagdvöl aldraðra, sem tekið er mið af við skipulagningu á dagþjálfun fólks með heilabilun, skal veita hjúkrunarþjónustu, hafa til staðar aðstöðu til þjálfunar, læknisþjónustu, bjóða upp á mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þá skal einnig boðið upp á aðstöðu til léttra líkamsæfinga, fæði, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Samkvæmt reglugerðinni skal einnig bjóða upp á flutningsþjónustu til og frá heimili einstaklings sem nýtir þjónustuna. Dagdvöl má reka sjálfstætt eða í tengslum við aðra starfsemi.