Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

30 bæir enn án netsambands

10.01.2014 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Um þrjátíu bæir í Þistilfirði eru enn án netsambands eftir að mastrið á Viðarfjalli féll undan ísingu í síðustu viku. Íbúar eru óánægðir með að geta aðeins skipt við einn aðila.

Fyrirtækið Magnavík sér um netsamband í dreifbýli Þistilfjarðar og átti sendi á mastrinu á Viðarfjalli sem féll 2. janúar. Síðan þá hefur ekkert internetsamband verið á stóru svæði. Guðmundur Magnússon, eigandi Magnavíkur, segir að viðgerð hafi gengið hægar en vonast var til, einkum vegna veðurs. „Það má segja að það hafi ekkert verið hægt að athafna sig á fjallinu núna síðustu daga en vonin er góð með morgundaginn.“

Unnið er að því að koma á sambandi á austurhluta svæðisins og Guðmundur vonast til að það takist seinna í dag. „Svo verður skoðað á Viðarfjalli á morgun hvort ég komi þessum tíu tólf notendum sem eftir eru í gegnum möstrin sem eru þar. Ég veit bara ekki hvort þau eru nógu há til að sjá yfir svæðið.“

Karen Rut Konráðsdóttir, á Syðra-Álandi, segir fólk orðið þreytt á netleysinu. Þetta komi sér sérstaklega illa fyrir sauðfjárbændur og þá sem reka fyrirtæki. „Fólk er vant að hafa þetta bara í lagi alla daga og það þarf að vera það og þetta eru orðnir líka ansi margir dagar.“

Íbúar á svæðinu hafa ekki val um að kaupa internetþjónustu af öðrum en Magnavík. Nokkur óánægja hefur verið með það fyrirkomulag. „Það vilja allir hafa val, við viljum velja við hvern við skiptum en þarna er ekkert val, við erum alveg háð einum aðila.“