3 létust í skipsskaða

14.01.2012 - 08:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Að minnsta kosti þrír fórust og hátt í þrjátíu slösuðust þegar skemmtiferðaskip með fjögur þúsund manns innanborðs strandaði skammt undan vesturströnd Ítalíu í gærkvöld.

Mikil skelfing greip um sig á meðal farþega og skipverja þegar Costa Concordia steytti á sandrifi við ítölsku eynna Giglio, sem er skammt undan ströndum Toskana-héraðs, og tók að halla ískyggilega í kjölfarið.

Allstór hluti fólksins gat komið sér í björgunarbáta en nokkrir stungu sér í kaldan sjóinn og syntu um fjögur hundruð metra til að komast í land. Þyrlur björguðu svo þeim fimmtíu síðustu, sem voru orðnir bæði blautir og hræddir. Hlúð var að fólkinu á Giglio og gekk það vel þótt íbúar eyjarinnar séu aðeins sjö hundruð. Flestum hefur nú verið komið upp á meginlandið. Björgunarfólk grandskoðar nú káeturnar til að tryggja að þar sé enginn fastur, að því búnu munu kafarar svipast um í þeim hlutum skipsins sem fyllst hafa af sjó, en það liggur nú nánast á hliðinni. Ítalskir fjölmiðlar fullyrtu í upphafi að sex eða átta manns hefðu farist í strandinu en ítölsk stjórnvöld telja nú þrír hafi týnt lífi og um 25 slasast.

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á óðagot og skipulagsleysi áhafnarinnar við björgunarstörfin. Costa Concordia er 290 metra langt og siglir um Miðjarðarhaf. Það lagði úr höfn skammt frá Róm snemma í gær, förinni var heitið til Sikileyjar, Sardiníu, Spánar og loks Marseilles í Frakklandi. Fjórðungur farþeganna var ítalskur, en einnig voru um borð hundruð Þjóðverja og Frakka og tugir Breta. Að sögn utanríkisráðuneytisins er ekki vitað til að Íslendingar hafi verið í farþegahópnum en verið er að skoða málið.