Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

29 kindur aflífaðar - ein dró 10 kg köggul

14.03.2018 - 12:57
Mynd með færslu
Myndin var tekin 14. mars þegar 29 kindur voru felldar í Loðmundarfirði.  Mynd: Þorsteinn Bergsson - MAST
Matvælastofnun lét skjóta 29 kindur í Loðmundarfirði á laugardag og telur að engar kindur séu nú eftir í firðinum. Féð var án fóðurs og umhirðu í firðinum. Eftirlitsmaður segir aðstæður þar erfiðar, allt á kafi í lausamjöll. Lömbin hafi verið horuð og allt að 10 kílóa snjókögglar fastir í ullinni. Verulega mikið hefði kostað að ná kindunum til byggða.

Illa gekk að smala fé úr Loðmundarfirði í haust og undanfarin ár hafa kindur frá Seyðisfirði komist í Loðmundarfjörð eftir smölun. Í vetur var ástandið óvenju slæmt og margoft farið að sækja fé. Bændur fengu frest til 1. febrúar til að ljúka smölun, þeir fóru skömmu síðar í fjörðinn með aðstoð varðskips í enn eina smölunina og náðust 80 kindur aðallega frá Selsstöðum í Seyðisfirði. Vitað var að hátt í 30 kindur urðu eftir og í eftirlitsferð sem farin var á laugardag var ákveðið að fella féð.

Allt á kafi í firðinum

Þorsteinn Bergsson, eftirlitsmaður Matvælastofnunar, segir að mjög snjóþungt hafi verið í firðinum og ekki séð á dökkan díl. Yngstu kindurnar hafi verið horaðar og sumar hafi dragnast með þunga snjóköggla í ullinni og eina fennt í kaf. „Það er nú þannig að í þessum lögum er kveðið á um að ef ekki sé hægt ná kindunum án verulegs kostnaðar þá eigi að aflífa þær. Það er alveg ljóst að aðstæður í firðinum voru þannig. Það var metersdjúp lausamjöll yfir öllu. Öllum firðinum alveg út að sjó. Kostnaður við að ná þessu lifandi úr firðinum hefði orðið meiri en verulegur,“ segir Þorsteinn.

Lagaskylda að grípa til aðgerða

Ekki hafi komið til greina að leyfa kindinum að vera í firðinum. „Það var haldinn fundur fyrir rúmri viku með sveitarfélögum á svæðinu og fulltrúum Matvælastofnunar. Þetta hefur verið ófremdarástand í mjög mörg ár. Það hefur verið fé á útigangi í Loðmundarfirði án alls eftirlits og oft mjög illa haldið. Nú eru í gildi ög um dýravelferð frá 2013 númer 55 og við ákváðum að þetta stæðist þau lög alls ekki og við yrðum hreinlega að gera eitthvað í þessu.“

Hræin sett í stórsekki og skilin eftir

29 kindur voru  felldar og hræin skilin eftir. Þorsteinn segir að ómögulegt hafi verið að koma með þau til byggða. „Allavega ekki við þessar aðstæður því það mátti nú þakka fyrir að við kæmumst sjálfir til byggða. Það er bratt upp úr firðinum og sleðarnir gegnu illa í þessari miklu lausamjöll. Þannig að það hefði ekki verið hægt að draga neitt á eftir sér það er alveg ljóst. En við gegnum eins snyrtilega og við gátum frá hræjunum, við vorum með stórsekki með okkur og gegnum frá hræjunum í fjórum slíkum. Bundum vel fyrir og skildum eftir. Borgarfjarðarhreppur hefur svo gengist inn á að ná þessu og koma í förgun um leið og hægt er. En við þessar aðstæður hefði slíkt verið ómögulegt,“ segir Þorsteinn Bergsson, eftirlitsmaður Matvælastofnunar í Austurumdæmi. 

Tilkynning Matvælastofnunar

Matvælastofnun sendi í morgun frá sér svohljóðandi tilkynningu vegna málsins. 

„Um síðustu helgi var farinn leiðangur í Loðmundarfjörð til að ná því sem eftir var af fé sem hefur verið í lausagöngu í firðinum, án eftirlits og fóðrunar. Tuttugu og níu kindur fundust og voru þær allar felldar.

Ástand fjárins var breytilegt. Flest var horað, enda beit lítil. Margar kindurnar voru styggar og margreyfaðar sem gefur til kynna að þær hafi gengið lausar um einhvern tíma. Sumar ærnar voru lembdar.

Átján af þeim 29 kindum sem fundust voru frá einum bæ, ein frá öðrum bæ og 10 voru ómerktar.

Matvælastofnun hefur margsinnis haft afskipti af öðru búinu á undanförnum árum. Kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafa ekki verið virtar að fullu og hefur fé frá bænum fundist í Loðmundarfirði að vetrarlagi. Umráðamanni dýranna var veittur frestur til 1. febrúar sl. til að endurheimta fé sitt úr firðinum, sem hann gerði að hluta.

Matvælastofnun sinnir eftirliti með velferð dýra en ábyrgð á fjallskilum liggur hjá sveitarfélögum. Rætt var um ástandið á fundi Matvælastofnunar og sveitarstjórna Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs í byrjun mánaðar þar sem aðgerðir voru skipulagðar.

Fimm manna hópur fór í Loðmundarfjörð laugardaginn 10. mars. Hann var skipaður dýraeftirlitsmanni Matvælastofnunar og fjórum aðstoðarmönnum. Skyggni var gott en þó er ekki hægt að útiloka að fleira fé leynist í firðinum. Var það mat viðstaddra að ómögulegt væri að sækja féð og var það fellt á grundvelli 7. gr. laga um velferð dýra.

Í reglugerð um velferð sauðfjár segir m.a. að:

Óheimilt sé að hafa fé á útigangi á vetrum þar sem ekki verði komið við fóðrun og eðlilegu reglubundnu eftirliti.

Umráðamanni sauðfjár eða geitfjár beri að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum dýrum og öllum þeim stöðum þar sem þau er haldin.

Tryggja skuli velferð allra dýra með því að líta reglulega til með þeim og bæta úr því sem ábótavant er.

Daglegt eftirlit skal haft með sauðfé og geitfé á húsi. Sérstakt og tíðara eftirlit skal haft með nýfæddu, sjúku og slösuðu fé. Sama á við um ær og huðnur nálægt burði. Fé sem haldið er úti yfir vetur skal haft í fjárheldum girðingum þannig að eftirlit sé framkvæmanlegt fram yfir sauðburð.

Fé skuli haldið hreinu og það rúið a.m.k. einu sinni á ári. Þegar fé er rúið að vetri til skal það hýst í skjólgóðri byggingu, þess gætt að það ofkælist ekki og skal einnig tryggt að fóðrun þess sé góð.“