Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

28 nýir virkjanakostir

20.03.2014 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Orkustofnun hefur sent verkefnastjórn um rammaáætlun lista yfir þá virkjanakosti sem stofnunin hyggst leggja fram tillögur um. 91 virkjanakostur er á listanum, þar af eru 28 nýir. Þetta staðfestir Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar hjá Orkustofnun.

Listinn var sendur verkefnastjórninni í þessum mánuði. Nýju virkjanakostirnir byggja flestir á skýrslu sem unnin var í iðnaðarráðuneytinu 1994 og bar yfirskriftina Innlendar orkulindir til vinnslu raforku. Hún hefur einnig verið nefnd Hvítbók. Að auki eru þar fjórir kostir tengdir vindorku.

Orkustofnun vildi ekki láta fréttastofu fá listann á þeim forsendur að hann sé vinnugagn og vísaði á verkefnastjórnina. Ekki náðist í formann hennar við gerð fréttarinnar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði verkefnisstjórn rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða í mars 2013. Verkefnisstjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn og skal að fengnum niðurstöðum faghópa, samráði við haghafa og umsagnar almennings vinna drög að rökstuddum tillögum til ráðherra um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða.