Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

27 nýir þingmenn taka sæti á Alþingi

28.04.2013 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Tuttugu og sjö nýir þingmenn taka sæti á Alþingi í fyrsta sinn, fimmtán karlar og tólf konur.

Framsóknarflokkurinn á flesta nýliða eða tólf. Átta eru í Sjálfstæðisflokki, þrír í Bjartri framtíð, einn í Vinstri hreyfingunni grænu framboði og tveir Píratar. 

Flestir nýliðar eru í suðurkjördæmi eða sex, þrír í Framsóknarflokki,  tveir úr Sjálfstæðisflokki og einn frá Bjartri framtíð. Þrír nýir þingmenn setjast á þing í Norðvesturkjördæmi, einn sjálfstæðismaður og tveir framsóknarmenn. Fimm nýir þingmenn eru í Norðaustur kjördæmi, tveir framsóknarmenn, einn í Vinstri grænum og einn frá Bjartri framtíð. Sex nýir í Suður kjördæmi, þrír framsóknarmenn, tveir sjálfstæðismenn og einn frá Bjartri framtíð. Fjórir nýir eru í suðvesturkjördæmi, tveir úr sjálfstæðisflokki og tveir úr Framsóknarflokki. Fjórir nýir þingmenn eru í Reykjavíkurkjördæmi Suður, þar af fyrsti þingmaður kjördæmisins, Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Tveir úr Bjartri framtíð. Framsóknarflokkur og Píratar fá einn mann hver. 

Fimm nýir þingmenn setjast á þing úr Reykjavíkurkjördæmi norður. Einn sjálfstæðismaður, tveir úr Framsókn, einn úr Bjartri framtíð og einn Pírati. 

Alls misstu ríkisstjórnarflokkarnir sextán þingmenn og tapa því um 27% frá síðustu kosningum. Samfylkingin tapar ellefu þingmönnum, er með níu, Vinstrihreyfingin grænt framboð, tapar sjö og fær sjö. Framsóknarflokkurinn bætir við sig tíu þingmönnum og fær nítján og Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig þremur þingmönnum frá síðustu kosningum og fær nítján. 

Þingmenn sem sátu á nýafstöðnu þingi en ná ekki inn eru Ólína Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingar og Jón Bjarnason sem bauð sig fram fyrir Regnbogann bæði í Norðvesturkjördæmi. Jónína Rós Guðmundsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar og Margrét Tryggvadóttir sem bauð sig fram fyrir Dögun, bæði í Suðvesturkjördæmi, Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, og  Mörður Árnason Samfylkingu í Reykjavíkurkjördæmi suður og í Reykjavíkurkjördæmi norður detta Skúli Helgason, Samfylkingu og Björn Valur Gíslason þingmaður Vinstri grænna út af þingi.