Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

27% fanga í Ástralíu eru frumbyggjar

02.09.2018 - 13:50
epa04297627 Tara Black holds her 18-month old daughter Nevaeh Dickson, as well as an iPad an in the aboriginal community of Peppimenarti, about 320km south-west of Darwin, Australia, 04 July 2014. Peppimenarti is one of eight Aboriginal communities
Frumbyggjar í Peppimenarti í Ástralíu. Mynd úr safni. Mynd: EPA - AAP
147 ástralskir frumbyggjar hafa látist í fangelsum eða í haldi lögreglunnar í Ástralíu á síðustu 10 árum. Stjórnarandstaðan segir þetta þjóðarskömm og samtök frumbyggja krefjast þess að sjálfstæð nefnd verið látin fylgjast með fangelsum landsins.

Einungis 2,8 prósent íbúa í Ástralíu teljast til frumbyggja landsins. Samt eru frumbyggjar 27 prósent allra fanga í landinu. 22 prósent allra fanga sem deyja eru frumbyggjar og 19 prósent þeirra sem deyja í haldi lögreglu. Á meðal hinna 147 frumbyggja sem látist hafa í haldi lögreglu eru nokkur börn.

Þetta eru niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar blaðamanna Guardian í Ástralíu. Þeir hafa kortlagt hvert einasta dauðsfall þeirra sem verið hafa í haldi lögreglu eða setið í fangelsi á undanförnum 10 árum.

Fyrir utan tölfræðina, sem hefur vakið hneykslan í Ástralíu, hefur rannsókn þeirra leitt í ljós að frumbyggjar eru líklegri til að deyja í haldi lögreglu en aðrir vegna kvilla eða veikinda sem auðvelt hefði verið að veita þeim meðferð eða umönnun við.

Geðveiki eða andlegir brestir koma við sögu í rúmum 40 prósentum allra dauðsfalla þeirra sem eru í haldi löggæslunnar. Rétt rúmlega helmingur þeirra frumbyggja sem stríddu við slíka kvilla fékk ekki þá meðferð sem hann hefði þurft á að halda.

Stjórnarandstaðan segir að þessar fréttir séu þjóðarskömm og samtök sem berjast fyrir réttindum frumbyggja krefjast þess að sett verði á laggirnar sjálfstæð nefnd sem fylgist með fangelsum og lögreglustöðvum landsins og að fylgst verði sérstaklega með þeirri meðferð sem frumbyggjar fá hjá löggæslunni.

epa05597099 A picture made available on 22 October 2016 shows people attending a rally protesting the death of an indigenous man, who died in custody at Yatala prison, on the steps of Parliament House in Adelaide, Southern Australia, Australia, 21 October
Mótmæli í október 2016 í Adelaide, í suður-Ástralíu stuttu eftir að frumbyggi lést í varðhaldi í Yatala-fangelsinu. Mynd: EPA
johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV