Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

27 dæmdir í samtals 75 ára fangelsi

12.10.2015 - 20:12
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson
Ellefu fyrrverandi bankamenn hafa fengið fangelsisdóma upp á fjögur og hálft ár eða meira bak við lás og slá. Alls hafa menn verið dæmdir í samtals 75 ára og tveggja mánaða fangelsi í málum sem tengjast hruninu.

Tæpum tveimur mánuðum eftir að þessi frétt var skrifuð mildaði Hæstiréttur dóm í máli gegn Birki Kristinssyni og þremur öðrum vegna lánveitinga og hlutabréfakaupa félagsins í eigu Birkis.

Tveir dómar voru kveðnir upp í hrunmálum í síðustu viku og þar með hafa 26 einstaklingar hlotið fangelsisdóma vegna brota í aðdraganda hrunsins. Þrír þeirra fengu alfarið skilorðsbundna dóma og fjórir fengu dóma sem voru skilorðsbundnir að hluta.

Tíu tengdir Kaupþingi sakfelldir

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, er sá fyrrverandi bankamaður sem hefur hlotið flesta refsidóma fyrir brot framin í aðdraganda hrunsins. Alls eru dómarnir þrír og refsingin samanlagt sex ár. Þó er rétt að hafa í huga að tvö málanna eiga eftir að fara fyrir Hæstarétt. Hreiðar var dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar í Hæstarétti í Al Thani-málinu. Hann var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og Marple-málinu. Honum var ekki gerð refsing í markaðsmisnotkunarmálinu. Hreiðar hlaut sex mánaða dóm í Marple-málinu með vísan til þess að refsiramminn væri fullnýttur með þeim dómi og Al Thani-málinu.

Hinn maðurinn sem hefur hlotið þyngstu mögulegu refsingu er Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg. Hann hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdómi í Hæstarétti vegna Al Thani-fléttunnar og átján mánaða dóm í Marple-málinu. Í seinna tilvikinu var tekið fram að ekki væri hægt að dæma hann til þyngri refsingar því sex ára hámarksrefsing væri fullnýtt með dómunum tveimur. Magnús var sýknaður í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.

Magnús Guðmundsson hefur samanlagt hlotið sex ára fangelsisrefsingu vegna hrunmála.

Sigurður Einarsson var sakfelldur í tveimur málum. Hann hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í Al Thani-málinu og eins árs fangelsisrefsingu í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Sigurður var ekki ákærður í Marple-málinu.

Fimm starfsmenn Kaupþings til viðbótar voru sakfelldir í stóra markaðsmisnotkunarmáli bankans. Þeirra á meðal eru þeir Ingólfur Helgason, sem fékk fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm, Bjarki Diego sem fékk tveggja og hálfs árs dóm. Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta, og tveir starfsmenn eigin viðskipta, Pétur Kristinn Guðmarsson og Birnir Sær Björnsson, hlutu allir skilorðsbundna dóma. Einar Pálmi fékk tveggja ára dóm en hinir eins og hálfs árs dóm.

Tveir hafa hlotið dóma í málum sem beinast að störfum Kaupþings án þess að hafa verið starfsmenn fyrirtækisins. Það eru Ólafur Ólafsson, einn stærsti eigandi bankans, sem hlaut fjögurra ára og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu og Skúli Þorvaldsson fjárfestir sem var dæmdur til hálfs árs refsingar í Marple-málinu.

Þyngstu dómar Glitnismanna vegna félags Birkis

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, var sýknaður í tveimur málum, Vafningsmálinu sem er lokið í Hæstarétti og Aurum-málinu en Hæstiréttur ógilti síðar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli vegna vanhæfis eins dómarans. Auk Lárusar var Guðmundur Hjaltason sýknaður í Vafningsmálinu. Aðrir sem voru ákærðir með Lárusi í Aurum-málinu eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Glitnis, Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.

Fjórir starfsmenn Glitnis voru dæmdir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik vegna lánveitingar til félags í eigu Birkis Kristinssonar, fyrrverandi landsliðsmarkvarðar og starfsmanns einkabankaþjónustu Glitnis, og kaup þess á hlutabréfum í bankanum. Elmar Svavarsson verðbréfamiðlari, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, og Birkir voru dæmdir í fimm ára fangelsi. Magnús Arnar Arngrímsson var dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Þeim dómi var áfrýjað og verður dæmt í málinu í vetur.

Einu Landsbankamáli skipt upp í tvennt

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur skipti í tvennt stóru markaðsmisnotkunarmáli sem sérstakur saksóknari höfðaði vegna Landsbankans.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var í síðustu viku dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar í Hæstarétti í fyrri hluta tvískipta málsins. Sá hluti þess sneri að aflandsfélögum bankans. Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs og fyrsti bankastjóri endurreists banka eftir hrun, hlaut átján mánaða dóm í sama máli og Steinþór Gunnarsson, forstöðumaður verðbréfamiðlunar, níu mánaða dóm. Steinþór er eini þremenninganna sem voru sakfelldir í héraðsdómi en Hæstiréttur sneri við sýknudómi Sigurjóns og Elínar.

Sigurjón Árnason var dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar með Hæstaréttardómi í síðustu viku. Öðrum dómi héraðsdóms hefur verið áfrýjað.

Sigurjón var einnig dæmdur til eins árs fangelsisvistar, þar af níu mánuði skilorðsbundið, þegar Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í hinum hluta markaðsmisnotkunarmáls Landsbankans. Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin viðskipta, og Júlíus Steinar Heiðarsson fengu níu mánaða fangelsisdóma, þar af sex mánuði skilorðsbundna. Miðlarinn Sindri Sveinsson var sýknaður.

Bankamenn, stjórnendur fyrirtækja og ráðuneytisstjóri 

Fyrstu bankamennirnir sem voru dæmdir til fangelsisvistar eftir hrun voru þeir Jón Þorsteinn Jónsson, Ragnar Z Guðjónsson og Styrmir Þór Bragason sem voru sakfelldir í Exeter-málinu. Jón og Ragnar fengu fjögurra og hálfs árs dóm en Styrmir eins árs dóm. Það mál sneri að því hvernig sparisjóðurinn Byr veitti MP banka lán til að kaupa hlutabréf sem voru í eigu stjórnarformanns og nokkurra starfsmanna Byrs. Jón Þorsteinn var stjórnarformaður Byrs og Ragnar sparisjóðsstjóri en Styrmir Þór var forstjóri MP banka.

Sparisjóðsstjóri og stjórn SPRON voru ákærð vegna lánveitingar til Exista tæpri viku fyrir setningu neyðarlaga. Þau voru sýknuð en saksóknari áfrýjaði dómnum.

Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Ari Bergmann Einarsson voru sýknuð í héraðsdómi í máli sem beindist að stjórn SPRON. Málið snýst um tveggja milljarða króna lán sem stjórn SPRON samþykkti að veita Exista sex dögum fyrir samþykkt neyðarlaga. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað sýknudómnum til Hæstaréttar.

Lýður Guðmundsson, helsti eigandi og áhrifamaður í Bakkavör, hlaut átta mánaða dóm í Exista-málinu og Bjarnfreður H. Ólafsson lögmaður hlaut sex mánaða dóm í sama máli. Hjá báðum var allt nema þrír mánuðir skilorðsbundið. Lýður var sýknaður í VÍS-málinu og sömu sögu er að segja af Sigurði Valtýssyni.

Hannes Smárason, stjórnarformaður FL-Group, var sýknaður af ákæru um fjárdrátt vegna greiðslu sem fór af reikningi FL-Group án skýringa, og taldi ákæruvaldið að féð hefði farið inn á reikning Fons.

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, fékk tveggja ára fangelsisdóm fyrir innherjasvik. Hann seldi hlutabréf í sinni eigu í aðdraganda hruns.

Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi forstöðumaður millibankaviðskipta í Íslandsbanka og síðar Glitni, fékk níu mánaða fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir innherjaviðskipti. Þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir. Friðfinnur var sakfelldur fyrir að selja hlutabréf sín í bankanum árið 2008 þó hann vissi stöðu sinnar vegna hvernig lausafjárstöðu Glitnis var háttað.

Viðbót 22. nóvember: Í upphaflegri gerð fréttarinnar vantaði dóminn yfir Friðfinni Ragnari Sigurðssyni. Honum hefur verið bætt við og mið tekið af honum við útreikning samanlagðrar fangelsisrefsingar þeirra sem voru sakfelldir.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV