Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

27 ákærðir eða sektaðir

25.01.2016 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Sjö mál hafa verið höfðuð vegna ferða fólks inn á bannsvæðið við Holuhraun meðan á eldgosinu þar stóð. Fjórir hafa verið ákærðir og 23 sektaðir.

Ákæra á hendur þremur mönnum var nýlega þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Þeim er gefið að sök að hafa farið á tveimur jeppum inn í Dyngjufjalladal, suður með Dyngjufjöllum og að eldstöðvunum í Holuhrauni hálfum mánuði eftir að bann var lagt við ferðum á þessum slóðum. Þetta er önnur slík ákæran sem þingfest er á árinu. Sú fyrri var á hendur þyrluflugmanni sem ákærður var fyrir að fljúga þrisvar inn á bannsvæðið. Ferðir hans komust í hámæli þegar auðkonan Goga Ashkenazi birti myndir á samfélagsmiðlum af sér og ferðafélögum sínum fyrir framan eldstöðvarnar.

Ferðabann var sett á afmarkað svæði vegna eldgossins í Holuhrauni. Sjö mál hafa komið til kasta lögreglu vegna ferða fólks inn á bannsvæðið. Fimm þeirra lauk með sekt, þar komu 23 tuttugu og þrír við sögu. Aðeins tvö málanna leiddu til ákæru. Sektir við brotum þessum geta numið tíu þúsund krónum að lágmarki en að hámarki hálfri milljón króna.