Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

26 morð frá aldamótum

05.10.2014 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Tuttugu og sex manns hefur verið banað hér á landi frá aldamótum. Oftast er kunningsskapur eða fjölskyldutengsl á milli geranda og þolanda.

Manndráp eru fremur frátíð á Íslandi. Árið 2000 var þó óvenjulegt en þá var fimm manns ráðinn bani hér á landi. Þremur körlum og tveimur konum. Tveimur árum síðar féllu fjórir fyrir annarra hendi. Þrjú ár hafa liðið frá aldamótum án þess að nokkrum hafi verði banað. Annars hafa einn til þrír hlotið bana af völdum annars á ári hverju.

Karlar eru í langflestum tilvikum gerendur. Af 26 gerendum frá aldamótum er 21 karl, konurnar fimm. Þolendur eru líka oftast karlar. 17 körlum var ráðinn bani á þessum fjórtán árum, en níu konum, samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra.

Þegar skoðuð eru tengsl á milli gerenda og þolenda kemur í ljós að í níu tilvikum voru þeir vinir eða kunningjar. Í sjö tilvikum þekktust gerandi og þolandi ekkert, eða í mesta lagi í nokkrar klukkustundir. Í fimm tilvikum var gerandi maki þolanda, eða hafði verið það. Í fjórum tilvikum voru fjölskyldutengslin önnur. Og í einu tilviki réðst fyrrverandi maki einstaklings að nýjum maka hans.