Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

25 Evrópuþjóðir eiga ákæru yfir höfði sér

06.02.2013 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Bretar og 24 Evrópuþjóðir aðrar, þar á meðal Íslendingar, gætu átt yfir höfði sér ákæru fyrir Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að hafa hafa veitt bandarísku leyniþjónustunni CIA aðstoð við fangaflug.

Samkvæmt skýrslu mannréttindasamtakanna Open Society Justice Initiative (OSJI), sem birt var í gær er vitað að ríkisstjórnir 54 ríkja voru í samstarfi við Bandaríkjamenn um mannrán, ólöglegar fangelsanir og pyntingar í svokölluðu stríði gegn hryðjuverkum á árunum eftir 2001. Nokkur ríkjanna veittu aðgang að lofthelgi sinni og flugvöllum. Þar á meðal var Ísland. Í ríkjahópnum eru 25 Evrópuríki.

Breska blaðið The Guardian hefur eftir skýrsluhöfundi í dag að öll þessi ríki sem tengdust fangafluginu kunni að verða dregin fyrir dómstóla vegna aðstoðar við mannréttindabrot. Þannig hafi Evrópudómstólinn þegar dæmt Makedóníu fyrir ólögmæta frelsissviptingu og pyntingar á þýskum ríkisborgara. Búið sé að kæra Pólland, Litháen og Rúmeníu fyrir að leyfa bandarísku leyniþjónustunni CIA að starfrækja leynileg fangelsi í löndunum. Þá er verið að draga Ítalíu fyrir Evrópudómstólinn fyrir aðild að mannráni þar sem múslimaklerkur var gripinn í Mílanó, fluttur til Egyptalands og pyntaður.