Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

25-34 ára standa sig verst í eldvörnum

21.11.2018 - 10:31
Mynd með færslu
 Mynd: Reykskynjari settur upp - RÚV- Rúnar Snær Reynisson
Fólk á aldrinum 25-34 ára stendur öðrum langt að baki þegar kemur að eldvörnum á heimilinu. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Gallup gerði  fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Eldvarnabandalagið.

Hvort sem litið er til fjölda reykskynjara eða slökkvibúnaðar stendur þessi hópur mun lakar að vígi en aðrir aldurshópar. Í fréttatilkynningu sem fylgir könnuninni segir að hún sé kynnt í tilefni af því að Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefst á morgun, 22. nóvember, og stendur fram í aðventubyrjun.

Átakið hefst formlega í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Í framhaldi af því heimsækja slökkviliðsmenn um allt land börnin í 3. bekk grunnskóla landsins og fræða þau um grunnatriði eldvarna nú í aðdraganda aðventunnar. Þeir gera börnunum grein fyrir aukinni eldhættu á aðventunni vegna mikillar notkunar kerta- og rafmagnsljósa og brýna fyrir þeim mikilvægi þess að nauðsynlegur eldvarnabúnaður sé á hverju heimili. Þá er átt við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Börnin eru einnig minnt á neyðarnúmerið 112.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV