Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

23 prósenta hækkun vegna ríkisstjórnar

01.10.2013 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjárframlög til æðstu stjórnar ríkisins lækka um 3,4 prósent milli ára. Framlög til Alþingis standa í stað en fjárheimildir forseta lækka um 4,5 prósent, einkum vegna samdráttar í opinberum heimsóknum. Kostnaður við ríkisstjórn hækkar um 23 prósent, einkum vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna.

Hundrað milljónir sparast með því að rannsóknarnefndir Alþingis hafa látið af störfum og kostnaður við framkvæmdir á Alþingisreitnum lækkar um 40 prósent. Eini liðurinn sem hækkar að ráði er kostnaður vegna ríkisstjórnar Íslands. Þar er gert ráð fyrir 23 prósenta hækkun, upp á 45,7 milljónir króna, og er hún að stórum hluta skýrð með fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra. Gert er ráð fyrir að ráðherrar verði tíu á næsta ári og aðstoðarmenn 16 talsins. Þá lækka fjárframlög til Umboðsmanns Alþingis um 17,2 prósent og Ríkisendurskoðunar um 8,2 prósent.

Fjárfestingaráætlun skorin niður

Skorið verður niður um 393,3 milljarða króna í forsætisráðuneytinu. Þar munar mestu um að fallið er frá 539,5 milljónum króna sem verja átti í verkefni á grundvelli fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar. Þar á meðal eru 280 milljónir sem ætlaðar voru í Græna hagkerfið, 200 milljónir í Húsafriðunarsjóð og 59,5 milljónir sem Þjóðgarðurinn á Þingvöllum átti að fá til verkefnisins innviðir friðlýstra svæða. Á móti kemur að 190 milljónir verða settar í Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa. Auk þess verða veittir fjármunir í samninga sem gerðir höfðu verið um framkvæmdir á Þingvöllum á grundvelli stefnumótunar fyrri stjórnar.

Minni framlög til Hagstofu

Framlög til Hagstofunnar lækka um 8,8 prósent, andvirði 93,3 milljóna króna. Þar munar mestu um að fjárframlag sem ætlað var til að koma á fót fyrirtækaskrá til hagskýrslugerðar er fellt niður. Það er gert vegna þess að IPA-mótframlag frá Evrópusambandinu fæst ekki. Gert var ráð fyrir 107,1 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu á móti 123,1 milljónar króna framlagi úr ríkissjóði. Ekki var búið að ganga frá þessum samningi þegar aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins var hætt og féllu styrkirnir því niður.