22.744 mismunandi ástæður

04.01.2016 - 10:20
Mynd: Rætur / RÚV
Hvað skyldi verða til þess að fólk ákveður að setjast að á Íslandi af öllum stöðum? Árið 2014 bjuggu 22.744 innflytjendur á Íslandi, svo það má kannski reikna með því að það séu 22.744 mismunandi ástæður fyrir því?

Í Rótum, nýjum þætti sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi, þar sem fjallað er um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi, var fjöldi fólks spurður þessarar spurningar. 

Þar voru margar ástæður tíndar til, svo sem náttúra Íslands, atvinnumöguleikar og ævintýraþrá. Einhverjir voru bara að elta fjölskyldu sína. Ein sagði að sig hefði langað til Grænlands og þannig einhvern veginn endað á Íslandi án þess að hafa beinlínis ætlað sér það. Svo voru aðrir sem gerðu það ekkert að gamni sínu að flytjast hingað, heldur voru að flýja fátækt, hörmungar eða pólitískt ástand heima fyrir. 

Einn heyrði lag með Pöpunum heima í Katmandú í Nepal og hugsaði þá með sér að hann yrði að komast til Íslands. Hann hefur nú búið í Skagafirði í 15 ár.

Rætur er fimm þátta sería sem sýnd verður á sunnudagskvöldum í janúar, kl. 19:45. Horfa má á þáttinn í heild sinni í Sarpinum.

 

sigridurh's picture
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi