Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

22 fórust í aurskriðu í Mjanmar

10.08.2019 - 06:44
Erlent · Hamfarir · Asía · Mjanmar · Víetnam · Veður
epa07765363 Rescuers search for victims after a landslide near Mottama, Mon State, Myanmar, 10 August 2019. Twnty-nine dead bodies have been recovered by emergency rescuers and it is believed dozens are still missing in the aftermath of a deadly landslide after heavy monsoon rain in Mon State.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 22 fórust þegar aurskriða féll á þorp í austanverðu Mjanmar í gærkvöld og jafnaði 16 íbúðarhús og eitt munkaklaustur við jörðu. Björgunarlið er enn að störfum í þorpinu í leit að fólki sem saknað er. Skriðan er rakin til steypiregns síðustu daga, en monsúnrigningar standa nú sem hæst eystra og jarðvegur víða gegnsósa.

Talsmaður stjórnvalda í héraði sagði björgunarlið, sem verið hefur að störfum í alla nótt, þegar hafa fundið lík 22 þorpsbúa og komið 47 slösuðum til hjálpar. Allt að 100 manns er enn saknað.

Vegasamgöngur eru í lamasessi og þurfti björgunarlið meðal annars að ryðja nær tveggja metra aurlagi af stórum kafla eins fjölfarnasta þjóðvegar landsins. Varað er við flóðum og aurskriðum víða um land og í strandhéruðum er varað við stórstreymi og sjóflóðum. Um 90.00 manns hafa hrakist að heima vegna flóðanna til þessa.

Mikil flóð urðu líka í Víetnam í liðinni viku og kostuðu átta manns lífið svo vitað sé. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV