Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

22 ára gamalt viðtal við David Bowie á Rás 1

Mynd: Sindri Freysson / Sindri Freysson

22 ára gamalt viðtal við David Bowie á Rás 1

04.01.2018 - 13:03

Höfundar

Í 22 ár hefur Sindri Freysson geymt tvær forláta diktafón-spólur í plastpoka niðri í skúffu. Á þeim er upptaka af viðtali sem hann tók við rokkgoðið David Bowie sumarið 1996 á hótelherbergi í New York. Sindri, sem er mikill aðdáandi tónlistarmannsins sáluga, hefur nú unnið útvarpsþátt um þessa ferð sína. Hann verður á dagskrá Rásar 1 á föstudag kl. 16:05 en endurtekinn kl. 15 á sunnudag.

Bowie á tímamótum

Árið 1996 hafði David Bowie nýlokið við að senda frá sér plötuna 1. Outside Sindri Freysson, sem á sínum tíma fór til fundar við Bowie sem blaðamaður Morgunblaðsins, segir plötuna hafa verið einskona upprisuplötu.  „Mörgum þykir hún nokkuð erfið, enda er hún „konseptplata“ sem fjallar um morð og mörk ofbeldis og fagurfræði, en fyrir mér er hún eins og skær ljóssúla eftir heilan áratug af daufum ljósum á ferli listamannsins.“

Viðtalið fór fram á hótelherbergi í New York og það lá vel á stjórstjörnunni, rifjar Sindri upp. „Hann kveik­ti auðveld­lega á per­sónutöfr­um og maður fékk einhvern veginn strax á tilfinninguna þá ranghugmynd að maður hefði þekkt þennan viðkunnalega náunga árum saman.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sindri Freysson
Sindri Freysson og Guðni Tómasson hafa sett saman forvitnilegan þátt, byggðan á viðtalinu góða.

Gaman að geta deilt þessu

Nýlega fékk Sindri þá hugmynd að athuga hvort ekki væri hægt að færa hljóðupptökuna yfir á stafrænt form og eftir að Hreinn Valdimarson, hljóðmeistari útvarpsins, hafði unnið við yfirfærslu og hreinsun geta hlustendur heyrt brot af því sem þeim Sindra og Bowie fór á milli í þættinum, þó vissulega séu hljóðgæðin barn síns tíma. 

Við sögu í viðtalinu komu meðal annars aldalokakvíði, listglæpir, leit að andlegri kjölfestu og gráu svæði tilverunnar.

Hér fyrir ofan má heyra stutt brot úr þættinum, sem verður eins og áður segir á dagskrá Rásar 1 á föstudag kl. 16:05 og endurtekinn á sunnudag kl. 15. Umsjón hefur Sindri Freysson en Guðni Tómasson sá um samsetningu.