Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sagan sjálf hverfur svolítið í bakgrunninn

Mynd: RÚV / RÚV

Sagan sjálf hverfur svolítið í bakgrunninn

08.12.2022 - 15:53

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru á sama máli um skáldsöguna Opið haf sem byggist á hrakförum sjófarans Guðjóns Friðþórssonar. Þeim þykir höfundi ekki takast að gera meginsögunni nægilega dramatísk skil, en segja að lokaspretturinn sé mjög góður.

Skáldsagan Opið haf er þriðja nóvellan í röð Einars Kárasonar sem byggist á sönnum atburðum. Þegar fiskibát hvolfir úti á opnu hafi í vetrarmyrkri er fátt sem getur komið mönnunum um borð til bjargar en einn maður andspænis ofurefli syndir áfram í örvæntingu. Saga Guðjóns Friðþórssonar er flestum landsmönnum kunn og sögusviðið því grípandi. 

„Þetta er ótrúlegt afrek sem við sem munum þessar fréttir allavega kunnum, að okkur finnst, algjörlega. Við vitum eiginlega allt sem gerist, og það er allt í þessari bók,“ segir Þorgeir Tryggvason og telur það vera helsta vandamál Einars, hann sé að glíma við hvernig eigi að segja þessa sögu í skáldsagnaformi. „Bæði vegna þess að hún er svo ljóslifandi fyrir svo mörgum og líka hvernig hún er byggð, þetta er maður að synda klukkustundum saman í ísköldum sjó.“ 

Þetta leysir Einar með því að láta söguhetjuna velta fyrir sér lífi sínu, rifja upp æsku sína og brandara úr amerískum brandarabókum. Einnig hugsar hann mikið upp sögu Vestmannaeyja og rifjar upp fyrri drauma úr lífi sínu. „Mér finnst eins og þetta hafi ekki alveg lukkast, eins og hann hafi ekki alveg fundið leiðina til að gera meginsögunni þau dramatísku skil sem hún kallar á,“ segir Þorgeir.  

„Á sama tíma og hann segir okkur vissulega margt fróðlegt og skemmtilegt þá einhvern veginn hverfur sagan sjálf í bakgrunninn á dálítið sérkennilegan hátt,“ bætir Þorgeir við. Hann telur þetta að hluta vera til komið vegna þess að söguhetjan er alein. Í fyrri bókum flokksins, til dæmis í Stormfuglum, er sagt frá samskiptum og hetjuskap ólíkra persóna sem gæði frásögnina lífi. „En þarna er bara einn maður með hugsunum sínum og minningum að glíma við náttúruölfin og það næst ekki alveg sá háski og sú dramatík sem hvílir þarna undir.“ 

Kolbrún tekur undir og segir það að vissu leyti vegna þess að lesendur viti svo mikið af því sem verið er að segja þeim. Bókin innihaldi mikið af upplýsingum sem Kolbrún er viss um að séu verulega fínar fyrir erlendan markað. „En fyrir mig sem lesanda var þetta meira upptalning,“ segir hún. „Svo er nokkuð um að það sé vitnað í Ása í bæ og dægurlaga texta, og ég verð bara að segja að þegar ég les Einar Kárason þá vil ég ekki fá Ása í bæ eða Gylfa Ægisson, ég vil fá Einar Kárason. Og bara lái mér hver sem vill.“ Hún telur Einar of bundinn raunverulegu sögunni sem átti sér stað sem og Vestmannaeyjum sjálfum. Þeim þykir bókin litlu bæta við þann hluta sem sé svo ógnvekjandi og heillandi við sögu Guðlaugs. 

„Mér finnst hann reyndar eiga mjög góðan lokasprett í þessari bók, þar er Einar upp á sitt besta,“ segir Kolbrún og Þorgeir samsinnir því.  

Þorgeir Tryggvason og Kolbrún Bergþórsdóttir fjölluðu um Opið haf eftir Einar Kárason í Kiljunni á RÚV. Hér er hægt að horfa á þátt sinn í heild sinni.