Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spurningar um hamingjuna

Mynd: Samsett / Samsett

Spurningar um hamingjuna

07.12.2022 - 14:03

Höfundar

„Spurningin er ef til vill bara sú hvort hægt sé að vera hamingjusöm þrátt fyrir lága og bága stöðu í lífinu og því er þó svarað með þessu stundum og stundum ekki. Á hinn bóginn þrýstir sér fram önnur spurning við lesturinn; hefur sögukonan sjálf fundið einhverja hamingju vegna þess að hún hefur komist frá uppruna sínum til mennta og stöðu í borgaralegu samfélagi?“ Gauti Kristmannsson rýnir í Staðurinn eftir nóbelsverðlaunahafann Annie Ernaux í Víðsjá.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Bandaríski félagsfræðingurinn David Riesman skrifaði fræga bók um miðja tuttugustu öld sem heitir The Lonely Crowd. A Study of the Changing American Character þar sem hann fer yfir félagslega þróun einstaklinga í samfélögum eftir því hvernig þeir stýrast af umhverfi sínu. Hann setur upp einfalda en áhrifaríka mynd af því hvernig manngerðir í samfélögum stýrast ýmist af hefð, af innri vilja eða ytri áhrifum. Þessi stýring mótast að miklu leyti af stéttum og þeim möguleikum sem umhverfið hefur á þær. Á miðöldum stýrðist fólk, háir sem lágir, af hefð, fólk fæddist inn í eina stétt og dó í þeirri sömu, á nýöld kemur til hin innri stýrða manngerð sem hefur, í krafti aukinnar menntunar eða annarra tækifæra, möguleika á því að brjótast út úr lægri stéttum til einhvers konar millistétta sem eru að vísu af mörgum gerðum og með sín eigin stigveldi. Loks kemur að því í hinum stóru borgarsamfélögum þar sem fjöldi fólks er einungis í sambandi við sína hópa í samfélaginu og stýrast þar með af ytri áhrifum, laga sig að þeim. Þótt bók Riesmans sé rituð löngu fyrir okkar tíma má eiginlega segja að samfélagsmiðlar samtímans sanni mál hans um hina ytri stýrðu manngerð, fólk sem fær staðfestingu tilvistar sinnar á þeim viðbrögðum sem færslur þess fá á þessum miðlum. 

Bókin sem hér er undir er reyndar líka rituð löngu fyrir okkar tíma, 1982 nánar tiltekið, og vafalaust ekki undir neinum áhrifum félagsfræðingsins bandaríska, en hún endurspeglar í sínu knappa formi þessa þróun að einhverju leyti. Hún segir aðallega frá föður sögukonunnar, smákaupmanni og kaffihússeiganda í smábæ í Frakklandi um miðja síðustu öld, en faðir hans og afi hennar var áreiðanlega af lægstu stétt, nánast í vistarbandi í kringum upphaf tuttugustu aldar. Afinn stýrðist algjörlega af hefðinni og hefði vísast aldrei látið sér detta í hug að eitthvað breyttist í hans lífi. Faðir hennar, hins vegar, brýst út úr þeirri stétt, vissulega ekki langt, en ævi hans stýrist af þeirri innri þrá að ná eitthvað lengra eins og sjá má af örlitlum áföngum hans með búð sína og kaffihús, og stundum þversagnakenndri þrá eftir að dóttir hans fari enn lengra og verði föðurbetrungur. Sem hún og verður, hún er dæmi um hina ytri stýrðu manngerð í líkani Riesmans, þar sem hún skrifar bækur og hlýtur fyrir margháttaðar viðurkenningar. Þegar hún er að alast upp frá uppruna sínum með skólagöngu sinni hverfast hugmyndir hennar í hinu nýja umhverfi millistéttar og menntafólks líka um ytri viðurkenningu innan hópsins sem hún er að nálgast hægt og bítandi. 

Það er auðvitað ofureinföldun að leggja félagsfræðilegt líkan ofan á svona bókmenntaverk, en öll greining felur í sér að einfalda flækjur sem textinn býr yfir. Staðurinn er sjálfssaga fremur en sjálfsævisaga, en um þessar bókmenntagreinar hefur töluvert verið fjallað undanfarin ár og ber þar kannski helst að nefna Sigurð Gylfa Magnússon, sagnfræðing, og Gunnþórunni Guðmundsdóttur, bókmenntafræðing, en þau hafa einnig notað mismunandi hugtök eins og sjálfsbókmenntir og æviskrif, en í grunninn eru sjálfssögur bókmenntaverk sem hafa höfund verksins að viðfangsefni að einhverju leyti.  

Þessi bók er líka það sem kallað hefur verið „metatexti“ og þá í bókmenntafræðilegum skilningi, en þetta hugtak virðist vera komið í umræður um gervigreind og annað tölvutengt, samanber „Metaverse“. Metatexti er hér texti sem fjallar um það verk sem lesandinn er að lesa nákvæmlega þá stundina. Annie Ernaux veltir nefnilega fyrir sér hvers konar bókmenntaverk hún er að skrifa og segist hafa hætt við að hafa skrifað skáldsögu um föður sinn, sem hún vildi samt skrifa um, en með öðrum hætti en „skáldlegum“:

„Engar skáldlegar minningar, engin aðhlátursefni færð í stílinn. Einfaldur ritháttur hentar mér vel, sá sami og ég notaði áður fyrr til að segja foreldrum mínum nauðsynlegustu fréttirnar af mér.“ 

Ernaux stendur alveg við þetta, stíllinn er knappur, en samt sem áður sérstæður, afbragðs þýðing Rutar Ingólfsdóttur endurspeglar það mjög vel, þessi lesandi skynjaði hvernig einfaldur stíllinn öðlaðist sína eigin fagurfræði í verkinu, hann er bæði einfaldur og flókinn í senn. Þótt höfundurinn noti þann rithátt sem hún nefnir hér að ofan er hann alls ekki allur þar sem hann er séður, hann er frá sjónarhorni hennar sem fullþroska og menntaðrar konu, og ein helstu átökin í sögunni snúast einmitt um tungumálið, átök föðurins að koma ekki upp um lágstéttaruppruna sinn með orðum sínum, hvernig hún sjálf kastar af sér hjúp mállýsku og þess sem hið nýja umhverfi liti á sem sveitalegt. Hún skrifar einmitt nokkurs konar metatexta um tungumálið sem hún talaði áður en talar ekki lengur.  

Hún þjáist líka af einhvers konar samviskubiti, eftirsjá, sem um leið er drifkraftur þessara skrifa. Hún fjallar opinskátt um það í textanum:

„Að átta mig á þessum smáatriðum hefur mikil áhrif á mig núna, kemur til mín af miklu meiri ágengni en ég gróf þau niður, svo viss um að þetta skipti engu máli. Ein niðurlægjandi minning varð til þess að ég geymdi þær. Ég lagaði mig að ósk þess heims sem ég lifi í, sem leggur sig fram um að láta minningar okkar frá heiminum fyrir neðan gleymast, rétt eins og þar væri um vondan smekk að ræða.“

Hugsanlega eru þessi skrif einmitt tilraun til að hefja upp þennan heim, sem hún yfirgaf, á hans eigin forsendum og það má vel segja að það hafi tekist. Þessi heimur og fólkið hennar standa okkur ljóslifandi fyrir sjónum þótt í knöppu máli sé. 

Spurningin um hamingjuna er síðan annað leiðarhnoða í textanum, spurningin um hvort hægt sé að öðlast hamingju inni í sínum heimi og vitaskuld er því ekki svarað með ótvíræðum hætti, þetta er alltaf retorísk spurning, en sögukonunni finnst samt sem áður að faðir hennar og móðir séu stundum hamingjusöm, þótt oft steyti líka á í lífinu, rétt eins og gengur. Spurningin er ef til vill bara sú hvort hægt sé að vera hamingjusöm þrátt fyrir lága og bága stöðu í lífinu og því er þó svarað með þessu stundum og stundum ekki. Á hinn bóginn þrýstir sér fram önnur spurning við lesturinn; hefur sögukonan sjálf fundið einhverja hamingju vegna þess að hún hefur komist frá uppruna sínum til mennta og stöðu í borgaralegu samfélagi? Það er kannski spurningin sem við þurfum öll að spyrja okkur eftir lestur þessarar bókar. 

Gauti Kristmannsson flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.