Hilmar Snær er 22 ára og var valin íþróttamaður ársins í annað sinn í dag því hann var fyrst kjörinn 2020. Hann náði sögulegum árangri fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramótinu í vetraríþróttum á árinu sem og á vetrar ólympíumótinu. Hann hafnaði í fimmta sæti í svigkeppni á báðum mótunum sem er besti árangur sem íslenskur keppandi hefur náð. Á HM keppti hann líka í stórsvigi þar sem hann hafnaði í 21. sæti en féll úr leik í stórsvigskeppninni. Í haust tilkynnti hann svo að hann væri hættur keppni.
Mjög stoltur
Hilmar segir það mikinn heiður að hafa orðið fyrir valinu. Hann kveðst vera mjög stoltur af árangri sínum bæði á heimsmeistaramótinu og Vetrarólympíumótinu þó hann hefði viljað ná á verðlaunapall. „En ég er mjög stoltur og ég veit ekki hvar ég hefði geta gert betur í báðum þessum keppnum."
Í haust tilkynnti Hilmar svo að hann væri hættur keppni. Hann sér ekki eftir þeirri ákvörðun og er á fullu í námi. „Ég verð alveg á skíðum og læt sjá mig í Bláfjöllum. Ég verð að þjálfa hjá ÍR og Víkingi," segir Hilmar sem vill þó ekki útiloka að hann snúi aftur til keppni seinna.
Thelma ætlar að ná Kristínu Rós
Thelma Björg er 26 ára en hlaut nafnbótina íþróttakona ársins í dag í fimmta sinn. Þar með er hún sú íþróttakona sem næstoftast hefur verið valin íþróttakona árins, á eftir sundkonunni Kristínu Rós Hákonardóttur sem varð íþróttakona ársins alls tólf sinnum. Thelma náði góðum árangri í sumar þegar hún vann til silfurverðlauna á Heimsmeistaramóti í Portúgal. Hún varð önnur í sínum flokki í 100 metra bringusundi á einni mínútu og 58,23 sekúndum.
Thelma segist ætla að reyna að ná Kristínu Rós og kveðst geta það. Hún býst við strembnu ári framundan þar sem heimsmeistaramótið verður meðal annars á dagskrá. Hún hefur sett sér það markmið að komast í úrslit í öllum greinum sem hún keppir í.