Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðning Péturs tengist ekki brotthvarfi Dags

Mynd með færslu
 Mynd: Veitur
Það að Pétur Krogh Ólafsson hafi verið ráðinn nýr viðskipta- og þróunarstjóri Veitna tengist því ekki að hann hafi verið aðstoðarmaður borgarstjóra um árabil. Þetta segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.

Pétur var ráðinn nýlega í starfið án auglýsingar. Starfið er nýtt innan Veitna og er liður í miklum vexti þessa dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, segir Sólrún. 

Starfsmenn Veitna eru ekki opinberir starfsmenn, þar sem Veitur er opinbert hlutafélag. 

„Þannig að okkur er nú ekki skylt að auglýsa störf og það kemur fyrir að við ráðum án auglýsingar, þrátt fyrir að almennt auglýsum við störf.“

Pétur hefur verið aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar borgarstjóra frá því Dagur tók við árið 2014. Áður var hann bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi en stýrði kosningabaráttu flokksins í borgarstjórnarkosningum 2014. 

Sólrún segir að Veitur stefni að því að stórefla samtal við sveitarfélögin sem fyrirtækið vinnur fyrir. Þar skipti reynsla Péturs sköpum. Hún segist ekki telja það óráðlegt að ráða pólitískan aðstoðarmann borgarstjóra, sem senn lætur af störfum. Í kjölfar borgarstjórnarkosninga í vor ákváðu Dagur borgarstjóri og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, að Dagur sæti á borgarstjórastóli þar til um mitt kjörtímabil og þá tæki Einar við.

„Við vorum nú bara að ráða hann Pétur sem hefur hæfni og þekkingu. Ég var nú ekkert endilega að velta því fyrir að borgarstjóri væri að láta af störfum, það var nú frekar bara sú þekking og hæfni sem Pétur býr yfir.“