Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blinken segir brýnt að tilslökun Kínverja takist vel

epa10343179 United States Secretary of State Antony Blinken makes remarks at a luncheon hosted by himself and US Vice President Kamala Harris honoring President Emmanuel Macron of France at the Department of State, in Washington, DC, USA, 01 December 2022.  EPA-EFE/Leigh Vogel / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Consolidated News Photos
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir brýnt að Kínverjum takist vel við tilslökun sóttvarnaraðgerða vegna COVID-19. Það sé öllum í hag, ekki síst Bandaríkjamönnum og í raun gervallri heimsbyggðinni.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir tilslökun sóttvarnarreglna mikilvægasta fyrir kínverska alþýðu. „Við viljum að Kínverjum gangi vel með þetta, enda afar áríðandi fyrir heimsbyggðina alla,“ sagði Blinken á samkomu haldinni að undirlagi The Wall Street Journal

Hann hafði sérstaklega orð á þeim gífurlegu áhrifum sem núllstefna Kínverja hefur haft á efnahag heimsins, meðal annars með útgöngubanni sem varð til þess að stöðva starfsemi fjölda fyrirtækja um landið allt. Þar á meðal eru verksmiðjur sem framleiða mikilvæga íhluti fyrir iðnframleiðslu víða um heim. 

Seint í seinasta mánuði hófust umfangsmikil mótmæli í Kína vegna ráðstafananna, þau mestu síðan árið 1989. Þeim fylgdi líka krafa um frekari pólítískar umbætur í landinu. Stjórnvöld brugðust skjótt og harkalega við til að leysa upp mótmælin en tóku jafnframt þá ákvörðun að slaka á sóttvarnarreglunum, ekki síst núllstefnunni. 

Sérfræðingar segja ákveðna áhættu fylgja slíkri tilslökun, enda skorti víða á bólusetningu í ljósi þess að stjórnvöld einblíndu frekar á aðrar leiðir til að draga úr útbreiðslunni. COVID varð fyrst vart í Kína síðla árs 2019 og síðan þá er álítið að sex milljónir manna hafi látist af völdum veirunnar.