Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Andstæðingar gagnrýna Spánarferð í vindorkugarð

06.12.2022 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Andstæðingar fyrirhugaðs vindorkuvers í Fljótsdal gagnrýna Spánarferð sem oddviti og fleiri landeigendur fóru í með fulltrúum erlends fjárfestingafélags. Oddvitinn hafnar því að þetta hafi verið boðsferð og segir eðlilegt að kynna sér vindorkuver í öðrum löndum af eigin raun. Hann hafi greitt ferðina úr eigin vasa en fjárfestarnir hafi boðið hópnum út að borða.

Danskt fjárfestingafélag, sem er með áform um stórt vindorkuver í Fljótsdalshreppi, sendi fulltrúa sína með í ferð Spánar þar sem landeigendur í dalnum kynntu sér nýtingu vindorku. Þeir sem eru andsnúir áformunum hafa gagnrýnt þessa ferð, þar á meðal Steingrímur Karlsson sem rekur Óbyggðasetrið í Fljótsdal. „Bændurnir hérna fóru í ferð til Spánar til þess að kynna sér þetta og það eru bara ekkert sambærilegar aðstæður og hér og töluðu við útvalda menn sem vindmyllufyrirtækið valdi fyrir þá sem viðmælendur. Þannig að manni finnst það ekki trúverðugt. Menn þurfa að leita sér upplýsinga miklu víðar,“ aagði Steingrímur við viðtali eftir íbúafund um málið. 

Skrítinn málflutningur að gagnrýna að menn kynni sér hlutina

Jóhann Frímann Þórhallsson, oddviti og landeigandi í Fljótsdal, var einn af þeim sem fóru í ferðina til Spánar. Hann segir að málið sé á algjörum byrjunarreit. Engar ákvarðanir hafi verið teknar, skipulagsferli sé ekki hafið og sveitarstjórnin muni kynna sér allar hliðar málsins. „Ég er ekkert orðinn sannfærður sjálfur um hvort þetta sé góð leið fyrir Fljótsdælinga eða samfélagið fyrir austan. En mér finnst skylda að við skoðum þessa hluti. Þetta var að mínu mati mjög nauðsynlegt að kynna sér vindmyllur í öðrum löndum og sjá af eigin raun hvernig hlutirnir eru. Og heyra í fólki annars staðar. Ef það er gert ótrúverðugt að maður kynni sér hlutina og setji sig inn í það þá er það svolítið skrítinn málflutningur,“ segir Jóhann. 

Það sé rangt, sem haldið hafi verið fram, að þetta hafi verið boðsferð. „Okkur var boðið einu sinni í mat úti af sveitarfélaginu úti á Spáni. Og eflaust borgaði CCC kvöldmat líka fyrir okkur einu sinni. Ég tel það ekki óeðlilegt. Ferðina borguðum við sjálfir og gistingu,“ segir Jóhann. 

Uppfært: 07.12.2022: Í upphaflegri útgáfu kom fram að ferðin hafi verið farin á vegum hins danska fjárfestingafélags en hið rétta er að Fljótsdælingar skipulögðu ferðina sjálfir. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV