Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Níu látnir eftir skyndilegt flóð í Jóhannesarborg

04.12.2022 - 15:37
epa10293255 A man walks through the annual heavy summer rains under his umbrella in Linden, Johannesburg, South Africa, 08 November 2022. The city is in the 'high veld' area of the country which experiences summer rain fall, with very little rain falling during the cold and dry winter months.  EPA-EFE/Kim Ludbrook
 Mynd: EPA - RÚV
Níu fórust í skyndilegu flóði sem fylgdi miklu úrhelli í Jóhannesarborg í Suður Afríku í gær. AFP fréttastofan greinir frá því að fólkið hafi verið í trúarathöfn með rúmlega tuttugu öðrum. Fólks er enn saknað.

Samkvæmt Robert Mulaudzi, talsmanni neyðarlínunnar í Jóhannesarborg, voru 33 komnir saman við trúarathöfn á bökkum árinnar Jukskei þegar flóðið ruddist skyndilega fram með fyrrgreindum afleiðingum. 

„Flóðið hrifsaði tvo með sér, sem létust samstundis,“ segir Mulaudzi. Leit var hætt í gærkvöldi en haldið áfram í morgun. Þá fundust sjö lík til viðbótar.

Mulaudzi segir á Twitter að fimmtán manns úr hópnum hafi orðið fyrir flóðinu. Í innlendum miðlum kemur fram að þeir tveir sem létust strax hafi verið að láta skíra sig í ánni. Björgunarsveitarfólk og slökkviliðsmenn leita enn þeirra sem er saknað.

Skyndileg flóð eru nokkuð algeng í þessum hluta Jóhannesarborgar, en þar er stormur nánast á hverri einustu nóttu á þessum árstíma. Í Suður Afríku er sumarið frá desember til febrúar. Þá eru hitabeltisstormar og þrumuveður algeng í stórum hluta landsins. 

Mikil úrkoma hefur verið í borginni síðustu þrjá mánuði og vatnsborð í ám orðið afar hátt, sem eykur mjög hættuna á flóðum.

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV