Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leit að skipverjanum heldur áfram í birtingu

04.12.2022 - 19:16
Þór á leið til Helguvíkur vegna strands flutningaskipsins Fjordvik
 Mynd: Jón Páll Ásgeirsson - Landhelgisgæslan
Leit verður fram haldið í birtingu að skipverja sem féll útbyrðis af fiskiskipi utanvert í Faxaflóa síðdegis á laugardag. Leitinni var frestað á tíunda tímanum í gærkvöld en varðskipið Þór hefur verið á svæðinu í nótt að því er fram kemur á Facebook síðu Landhelgisgæslunnar. Leitað var án árangurs í allan gærdag á stóru svæði, við ágætar aðstæður, um 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga með fulltingi fjölda skipa og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

Sneru við og reyndu að koma auga á skipsfélaga sinn

Fiskiskipinu var snúið við um leið og maðurinn féll útbyrðis og skipsfélagar hans reyndu að koma auga á hann en án árangurs. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er skipið gert út frá Suðurnesjum, það er nokkuð stórt og áhöfn þess líka. 

Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, segir að ekki sé vitað hvað varð til þess að maðurinn féll fyrir borð.

Fjöldi fiskiskipa og björgunarbáta ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar og varðskipinu Þór tóku þátt í leitinni í dag og leitarsvæðið var þúsund ferkílómetrar sem jafngildir öllum Reykjanesskaga.

Líkur eru á að leitarsvæðið verði enn stærra á morgun. „Þegar við höfum ekkert til að byggja á þá reynum við að reikna mögulegt rek út frá vindi og hafstraumum. Það er það sem við höfum í þessu. Og  skip sem eru með straummæla og vindmæla geta mælt þetta fyrir okkur sem hjálpar til við að ná nákvæmari útreikningum. “

Þegar fór að dimma síðdegis í gær var dregið úr leitinni og þegar kvölda tók var ákveðið að fresta henni til birtingar eins og áður sagði. Þá mun vera spáð ágætis veðri. 
 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV